Saga úr strætó

Ég er aðdáandi strætisvagnakerfisins hér. Vagnarnir koma með fimm mínútna millibili, bílstjórarnir heilsa glaðlega og fólk þakkar fyrir sig þegar það gengur út úr vögnunum. Svo eru vagnarnir nýttir til að mynda félagsleg tengsl eins og ég varð vör við í morgun.

Ung kona kom í vagninn með litla, c.a. hálfsárs bláeygða, ljóshærða  og fallega stúlku sem brosti í allar áttir. Hún brosti þó mest til konunnar fyrir framan mig, miðaldra konu með slæðu, greinilega af indverskum uppruna. Hrifningin virtist gagnkvæm því konan færði sig nær þeirri litlu og móðurinni. Móðirin og konan tóku tal saman og spurði móðirin hina hvort hún ætti börn. Nei, ég á engin börn. Ég átti einn son sem lést ungur.

Ég fékk sting í hjartað við þetta svar og svo átti örugglega við um fleiri í strætisvagninum því þær töluðu saman á milli sætisraða svo  fólk í kring komst ekki hjá því að heyra samræðurnar.  

Unga móðirin lét þetta ekki slá sig út af laginu, vottaði hinni samúð sína, stóð upp  og færði henni barnið í fangið. Það hefði mátt heyra saumnál detta í vagninum.

Hún spurði svo þessarar hefðbundnu spurningar, sem flestir hörundsdökkir útlendingar fá. „Hefurðu búið lengi í Skotlandi?Í ljós kom að sú indverska hafði tekið doktorsgráðu í sjávarlíffræði í Oxford, þar sem eiginmaður ungu konunnar hafði einnig numið og þær áttu sameiginlegan kunningja.  Unga konan fór út úr vagninum á sama stað og ég en þær höfðu þá skipst á netföngum og ætluðu að halda sambandi.

Einhvern veginn skein sólin skærar en áður, þessa síðustu metra að háskólabyggingunni, eftir að ég steig út úr strætó í morgun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær saga!

Birgir Palsson (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 20:14

2 identicon

Vá hvað þetta er æðisleg saga.

Erna María (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband