23.9.2007 | 12:53
Alein í Aberdeen
Ég er svo heppin að hafa kynnst yndislegum hjónum sem búa í Aberdeen, Mary og Nigel. Tengdaforeldrar mínir, Auður og Páll, kynntu mig fyrir þeim en þau hafa dvalið í nokkur skipti hér í Aberdeen. Páll kom hingað meðal annars í rannsóknarleyfi frá HÍ. Nigel er heimspekingur, hefur mikinn áhuga á umhverfissiðfræði og mun meðal annars kenna við HÍ nú í haust. Mary er menntuð í landafræði en hefur starfað við ferðabransann um árabil. Þau hugsa um mig eins og ég væri þeirra eigin dóttir. Komin með plöntur úr garðinum þeirra í gluggakistuna í stofunni, epli, sem ég þarf að vísu að sjóða (ekki enn búin að koma því í verk), súkkulaðikex frá Faire Trade samtökunum, bláberjavín og svo fékk ég auðvitað reykta fiskinn.
Mary er dugleg að hringja og athuga hvernig ég hef það og benda mér á staði og viðburði. Ekki amalegt að eiga svona góða að. Ég bý ein í fyrsta skipti á ævinni. Ég hef auðvitað búið ein með stelpunum mínum áður, bæði í Noregi og á Sauðarkróki. En það er allt annað. Þá snerist heimilislífið um þær og það mynduðust tengsl undir eins við aðra foreldra í gegnum íþróttir og aðrar tómstundir. Það næsta sem ég hef komist því að búa ein var í skíðabænum Geilo í Noregi. Ég vann þar einn vetur, á milli 2 og 3 bekkjar í menntó. Að vísu bjó ég í hálfgerðri kommúnu með vinnufélögunum, en hafði þó nokkurt prívatlíf.
En núna bý ég semsagt alein í íbúð. Og finnst allt í drasli, snúrum og fötum og bókum og bollum og umslögum. Svo er brjálað að gera í tæknimálum heimilisins. Ég er endalaust að kveikja og slökkva á gashitaranum, rosalega patent, en er ekki alveg búin að átta mig á hvað snýr upp og hvað niður. Er enn með sjóræningja nettengingu, og þarf því að færa tölvuna svolítið fram og aftur. Svo eru það hátalararnir, sem þurfa að fylgja með, á ferðalaginu um íbúðina, má ekki missa af fréttunum á Rúv. Heyrnartækið eltir mig líka, ef Biggi skyldi hringja á Skypinu á meðan ég er stödd í vestari hluta stofunnar.... og lengi mætti telja. Guðs mildi ef ég á ekki eftir að flækjast í þessu fargani og detta illilega. Gott að Biggi kemur um næstu helgi, ef ég skildi liggja hér bjargarlaus!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.