26.9.2007 | 20:16
Í skólanum
Prófessor Robert Chia frá Singapore ljómaði þegar hann ræddi um Adam Smith í morgun.
"Kapítalisminn er einhver sú stórkostlegasta hugmynd sem hefur verið fundin upp".
Og allir hundrað kollarnir í salnum kinkuðu. Hvort sem þeir tilheyrðu Wu frá Kína, Doru frá Nígeríu, Anne frá Póllandi eða Salad frá Indlandi.
Allir komnir til að læra að græða. Ekkert verið að spá og spekúlera í mannréttindamálum eða kynjafræði út frá hugmyndinni um réttlæti. Slík umræða ætti einungis rétt á sér í samhengi við að reka fyrirtæki með sem mestum hagnaði.
Og síðar;
"Það gildir að vera klókur, hafa skýra stefnu. Við í Singapore áttum ekkert land, engar auðlindir og þurftum að bjarga okkur. Við lokkuðum erlenda auðhringi til okkar með því að bjóða þeim tvennt. Fimm skattfrjálsa daga á ári og engin verkalýðsfélög. Ég veit að einhverjum hér finnst verkalýðsfélög mikilvæg en hvað áttum við að gera? Svelta?"
Síðar í dag var fyrirlestur hjá öðrum prófessor, um alþjóðavæðinguna. Þar kom fram, sem allir vissu, því aftur kinkuðu hundrað kollar, að stórfyritæki stæðu frammi fyrir afar takmörkuðum auðlindum sem ógnuðu framleiðslunni. Að fyrirtæki til dæmis í álbræðslu leituðu allra leiða til að komast i ódýra raforku. Og færu jafnvel til vanþróaðri ríkja með framleiðsluna.
Það er nefnilega það.
Ég hét með sjálfri mér að segja engum frá viðskiptaviti íslenskra stjórnvalda .
Singaporbúar seldu vinnuframlag sitt fyrir lítinn pening fyrir áratugum síðan , þegar þjóðin bjó við afar kröpp kjör. Þeir áttu ekki annarra kosta völ að mati doktor Chia.
Íslendingar, ein ríkasta þjóð heims, gera út leiðangra til að bjóða eftirsóttustu vöruna á markaði í dag, fyrir spottprís!
Athugasemdir
Gaman að fylgjast með nýju lífi þínu
Hólmfríður (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 21:21
Takk fyrir kveðjuna.
Já þetta er mjög athyglisvert allt saman!
Regina (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 21:34
Skemmtilegt blogg... elska þig mamma : )
Erna María (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 14:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.