8.10.2007 | 16:37
Með rauðvín í poka
Á föstudagskvöldinu borðuðum við á meira en fimmtíu ára gömlum indverskum veitingastað, Kushi´s, sem er við Viktoríustræti í gamla bænum í Edinborg. Staðurinn er á tveimur hæðum í glæsilegri byggingu, sem er greinilega nýuppgerð. Athygli vakti risastór kristalsljósakróna sem náði á milli hæða.
Þegar þjónninn kom og bauð okkur drykki, þá báðum við að sjálfsögðu um að fá að sjá vínlistann. "Það er ekkert vín selt hér" sagði þá þjónninn. Við hváðum við því allt í kringum okkur mátti sjá rauðvínsflöskur á borðum og bjóra á stöku stað. Fólk kemur með vínið að heiman sagði þjónninn þá, eða fer á nærliggjandi bari og tekur með sér inn.
Við fengum okkur bara vatn með matnum og vorum sælar með það. Það virkaði eitthvað svo mikið vesen að fara að þvælast á bari í kring og kaupa glös af víni og labba með yfir á veitingahúsið. Auk þess hafa bragðlaukarnir af nógu að taka þegar indverskur matur er annars vegar. Og maturinn var mjög góður.
Það er víst ekki einsdæmi í Edinborg að veitingastaður bjóði fólki að taka með sér vín að heiman. Myndi spara dálaglegar summur hjá gestum íslenskra veitingahúsa, ef þessi siður yrði tekinn upp!
Athugasemdir
mér finnst svona veitingastaður frábær hugmynd. sé samt ekki alveg fyrir mér að þetta mundi ganga á Íslandi...heldurðu að fólk kæmi ekki með heilu ámurnar með sér og slægi upp partíi?
baun (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 09:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.