Í skólanum

kingsauditorium01Nokkrir fyrrum samstarfsfélagar mínir kvarta sáran undan því að heyra ekki meira um mína persónulegu hagi í Aberdeen, hvernig skólinn sé osfrv. Markmiðið með blogginu var ekki að gera nákvæma dagbók, til þess lifi ég ekki nógu spennandi lífi! En af því að þarna er um dygga lesendur að ræða þá ætla ég að taka mið af ábendingunum og segja ykkur betur frá náminu.

Ég er í námi sem er kallað MIC (Management, Innovation and Change) eða stjórnun, nýsköpun og breytingar. Námið er í hagfræðideild Viðskiptaháskólans og gráðan er MSc (Econ). Fram að áramótum erum við með MBA nemendum í öllum kúrsum. Eins og við stríðum þeim með; lærum það sama, fyrir mun lægri skólagjöld!

Fyrir jól tökum við fjögur námskeið;  í rekstrarfræði, fjármálum og bókhaldi, stefnumótun og skipulagsheildum og þjóðhagfræði. Eftir jól eru fjögur námskeið; í stofnun og þróun fyrirtækja, breytingastjórnun, frumkvöðlafræði og fyrirtækjarannsóknum. Svo er það ritgerðin í sumar. Samanlagt eru þetta 180 ECT.

Það er skemmst frá því að segja að mér finnst námið gríðarlega skemmtilegt. Fagið rekstrarstjórnun, "Operations Management" snýst um allt sem viðkemur rekstri. Á meðan að stefnumótun fjallar um hvert fyrirtækið/stofnunin á að fara þá er rekstrarstjórnunin um aðferðir við að gera hlutina. Hvort sem um er að ræða skipulagningu á flæðilínum í verksmiðjum, þjónustuferlum í stórmarkaði, hönnun vinnusvæða, eða svartíma í síma, svo fátt eitt sé talið. 

Eðlilega fylgja þessu fagi töluvert miklir útreikningar og svo á við um flest fögin. Það kom mér til dæmis á óvart á námskeiðinu í  stefnumótun og skipulagsheildum hversu mikil áhersla er á fjárhagslega áætlanagerð. Ég þurfti því að fjárfesta í nokkuð voldugri reiknivél og er í óða önn að læra á öll trixin. Tók "manúelinn" til Íslands yfir helgina og við Biggi eyddum föstudagskvöldinu í að stúdera hann saman. Gaman hjá okkur!

Ég hef nefnt húsnæðið áður, okkar hópur er í elsta hluta háskólans sem er 500 ára. Þegar mér leiðist kennarinn (sem kemur sjaldan fyrir), þá dunda ég mér við að horfa upp í loft í þessum ægifagra sal sem við sitjum í og sést á myndinni hér að ofan.

Segi ykkur meira frá félagslífinu síðar, en svo því sé til haga haldið þá er ég líklega elst af þessum 100 manna hópi og lang fölust í framan. Sker mig skemmtilega úr.Grin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hmmm...trúabrögð mammons í kirkju?  eitthvað heilagt við svona lofthvelfingar...

baun (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 08:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband