19.10.2007 | 12:02
Skoskar stúlkur með selshúð
Gordon Brown hyggst leggja til atlögu við drykkjumenningu ungs fólks en unglingadrykkja í Bretlandi er komin úr böndunum að mati yfirvalda. Skotland er svo sannarlega ekki undanskilið því skoskir unglingar og sérstaklega skoskar stúlkur drekka einna mest af ungu fólki samkvæmt alþjóðlegum samanburðarkönnunum.
Þetta kemur ekki á óvart. Þegar við Biggi komum hingað til Aberdeen á föstudagskvöldi fyrstu helgina í september fengum við nánast sjokk. Við komum okkur fyrir á gistiheimili og ætluðum svo út að fá okkur huggulegan kvöldverð. Orðin ofdekruð af Frakklandsdvölinni í sumar og sáum fyrir okkur notalegt kvöld, jafnvel á veitingahúsi með borðum úti. Sjónin sem mætti okkur var hinsvegar ófögur. Hvarvetna drukknir unglingar sem hrópuðu og hræktu og hálfberar unglingsstúlkur skjögrandi á alltof háum hælum. Ég hef aldrei séð annað eins, nema í Reykjavík!
Það kom síðan á daginn að þessi fyrsta helgi í september er sérstök, þá eru 20 þúsund ungmenni að byrja í háskólunum og drykkjan í hámarki. En klæðnaður skoskra kvenna á djamminu er algjörlega með ólíkindum. Bæði hér og í Glasgow og Edinborg er einhver undarleg tíska. Berir leggir þó það séu örfá hitastig, hælaháir Andresínuskór, glitrandi toppar og æpandi eyrnaskraut. Við vorum forviða vinkonurnar í Edinborg þegar við sáum straumana af stúlkum sem voru á leið á djammið í búningum sem hefðu sómt sér betur í rauða hverfinu í Amsterdam.
En eitt er fagurfræðin, annað er kuldaþolið. Ég er hreinlega á því að þær hafi selshúð, skosku stúlkurnar. Áfengið gerir þær auðvitað heitar en ég tek líka eftir þessu í strætó og í skólanum. Á meðan að ég og aðrir erlendir námsmenn vefjum okkur inn í ull og dún þá spígspora þær framhjá í hlýrabolum. Það verður spennandi að sjá hvernig þær klæða sig í alvöru vetrarveðrum, frosti og snjókomu. Kannski nælonsokkabuxur séu vetrarbúningurinn í stað þess að vera með bera leggi.
Athugasemdir
já, það er með ólíkindum hvað hinar skosku píur voru glyðrulega til fara....og að nenna að skæklast á þessum háu hælum er mér óskiljanlegt
baun (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 21:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.