Víðar norpað en við Norðursjó

Home page image 1Stjórnandi námsins sem ég er í, Lyn Batchelor, brá sér til Íslands um sömu helgi og ég var heima. Hún er frá Ástralíu og mætti til landsins í fylgd tíu vina, Breta og Ástrala. Ég vonaði auðvitað heitt og innilega að Ísland myndi taka á móti hópnum með björtu veðri svo sæist í jökla og fossa, lát vera að fossarnir væru í klakaböndum, aðalatriðið að það glitti í þá.

Liz kom á laugardegi, um hádegi og sendi mér smáskilaboð strax og hún kom til borgarinnar. Landið ykkar töluvert öðruvísi, leið eins og ég væri komin til tungslins á leiðinni frá flugvellinum til Reykjavíkur, sagði í skilaboðunum. Dumbungsveður var í borginni og rigningarsuddi.

Skömmu eftir hádegi hringdi svo Liz; eitthvað sérstakt sem við ættum að gera í Reykjavík úr því veðrið er svona, "some indoors activities?"

Hmmmm, það rauk úr heilanum á mér. Kannski að fara á söfn? Skoða þessi fjögur kuml sem við eigum á Þjóðminjasafninu, eða fölsuðu/ófölsuðu málverkin í Listasafni Íslands? Eða kannski að versla, í Smáralind eða Kringlunni? Það er allavega inni.

Ég endaði á að benda henni á að fara í sund. Það er mjög vinsælt í vondum veðrum á Íslandi, sagði ég (líka í góðu veðri). Gaman að láta dropana daðra við nefbroddinn í heitum potti.  Ég var stödd í Borgarnesi á leið í Stykkishólm að heimsækja mömmu sem dvelur þar á sjúkrahúsi, þegar Lyn hringdi, svo ég átti óhægt um vik að bjóðast til að koma og lóðsa hópinn í sund. En ég reyndi að útskýra fyrir henni í símann, strætósamgöngur í Vesturbæjarlaug eða Laugardalslaug.

relaxtubeHversvegna skyldi það nú vera, að það sem mörgum ferðamönnum finnst mest spennandi  af því sem við höfum upp á að bjóða í Reykjavík, útisundlaugar, sé ekki í boði í miðborginni? Ætli engum heilsuræktarfrömuði hafi dottið í hug að sækja um lóð til slíks reksturs? Eða hóteleiganda? Ég er viss um að lítil útilaug með heitum pottum yrði afar vel sótt af ferðamönnum og jafnvel miðborgarbúum. Það mætti selja miðana á hærra verði, til að reksturinn bæri sig. Það væri ekki amalegt að geta skokkað  í laugina úr Hlíðunum á góðum kvöldum og borgað sambærilega upphæð  og í bíó, fyrir að svamla í heitum potti, horfa á stjörnubjartan himininn og súluna hennar Yoko. Fá sér svo snarl á börum bæjarins á heimleiðinni.

En af Liz og vinum hennar er það að segja að þau fóru fljótlega úr bænum og áttu frábæra daga í Borgarfirði og á suðurlandi auk þess sem Bláa lónið var heimsótt. Þrátt fyrir hryssinginn og norpið sem honum fylgdi, ætla þau öll að koma aftur, en að vísu að sumarlagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband