24.10.2007 | 21:19
Kalifornía
Það er ekki hægt annað en að hugsa til fólksins sem býr í Kaliforníu þessa dagana og baráttu þess við að halda heimilum sínum. Ragnarök eru orð sem einhverjir íbúar hafa látið falla um eyðilegginguna.
Ég heimsótti Kaliforníu í fyrsta skipti fyrir nokkrum mánuðum síðan. Við Erna María, frumburðurinn minn, ferðuðumst einhverja þúsundir kílómetra í þriggja vikna ferð okkar frá Denver í Colorado og niður til San Diegó og þaðan meðfram allri strandlengjunni í Kaliforníu og alveg upp til Shelter Cove í norðri. Flestir kílómetranna voru farnir akandi þar sem við skiptumst á að keyra, einnig voru margar flugmílur flognar í ferðinni og þar var Erna ein við stjórnvölinn en ég naut lífsins sem farþegi.
Ég hafði heyrt um Kaliforníu frá því ég var smákrakki. Um appelsínurnar og vínberin sem uxu í görðunum, fagurbláan sjóinn, pálmatrén og hlýja loftslagið, að ógleymdum stjörnunum í Hollywood. Föðurbróðir minn bjó og starfaði í Los Angeles, var yfirkokkur á Hilton hótelinu í Beverly Hills og giftur ítalskri konu. Hann kom til Íslands á þriggja ára fresti og bjó þá á heimilinu hjá okkur. Ég finn enn lyktina af glænýjum dúkkum sem voru einatt með í för hans, Barbie jafnaldra mín er afar minnisstæð og bleika ballerínan, sem var um 70 cm á hæð og gat talað og hreyft leggina.
Ég gat horft löngum stundum á myndir af systkinabörnum mínum þarna úti, fallega brúnum í ljósum sumarfötum, og látið dagdraumana bera mig hálfa leið til góssenlandsins. Ragnhildur systir var líka bitin af bakteríunni en lét dagdrauma ekki nægja heldur flutti til Los Angelses með fjölskyldunni og fór í nám í kvikmyndagerð.
Ég verð að segja að ég upplifði Kaliforníu enn fallegri heldur en ég hafði ímyndað mér, þegar ég loksins kom þangað. Ekki að undra að þeir sem hafa mestu peningafjárráðin velji að búa þar. Loftslagið, sjórinn, fjöllin, gróðurinn, alveg óendanlega fallegt og hlýlegt.
Ég vona svo innilega að menn nái tökum á eldunum, áður en tjónið verður enn meira en orðið hefur og að stjórnvöldum takist að bæta fólki fljótt og vel þann skaða sem hefur orðið.
Athugasemdir
Ó já það eru sko fleiri sem muna eftir ballerínunni
Hólmfríður Einarsdóttir (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 10:02
Ég held að þetta hafi verið flottasta dúkkan í gjörvallri götunni á sjöunda áratugnum!
Regína Ásvaldsdóttir, 25.10.2007 kl. 19:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.