Íslenska útrásin í Aberdeen.

aberdeen_04_-_23.08-1Ég er búin að uppgöva að íslenska útrásin nær auðvitað til Aberdeen eins og annarra staða í heiminum. Íslendingar reka hér flugfélag, CityStar, sem er með beint flug til Stavanger og nokkurra annarra borga í Noregi og það nýjasta er beint flug til Houston í Texas fjórum sinnum í viku.  Flugfélagið er í raun byggt upp í kringum olíuiðnaðinn. Svo er Nýsir með stórt verk hérna, nýbyggingar og viðbyggingar á 10 skólum og íþróttamannvirki ásamt rekstri bygginganna.

Í gærkveldi frétti ég svo að það væri íslensk hárgreiðslukona hér og fylltist miklu öryggi við þá frétt!

Ég var áður búin að uppgötva  Arnar sem er að kenna mannfræði hér. Ég sá mynd af honum og frétt á heimasíðu háskólans í haust en hann var einn þriggja kennara sem fengu verðlaun fyrir framúrskarandi kennslu. Í gærkveldi var ég í boði hjá honum og Huldu konunni hans ásamt Albertínu, nema í framhaldsnámi í landafræði. Þar var ákveðið að hefja undirbúning að jólahlaðborði fyrir Íslendinga sem búa hér, sem haldið verður í byrjun desember.

Það er ekki skrýtið að Íslendingar hasli sér völl hérna í borginni. Tækifærin blasa við því olíuauðurinn streymir inn og það er mikill uppgangur. Maður skynjar það á byggingaframkvæmdunum og svo er hver sérvöruverslunin á fætur annarri að opna, ýmist með sælkerafæði eða fínar og dýrar merkjavörur. Það er því allt útlit fyrir að ræstingavörubúðirnar og hjálpræðishersmarkaðirnir á aðalgötunni muni smátt og smátt víkja fyrir nýjum verslunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband