6.11.2007 | 14:34
Djammað í kirkjum
Eitt af því sem vakti undrun mína þegar ég kom hingað var að uppgötva að stórar og glæsilegar kirkjur eru notaðar undir bari og veitingahús. Eitt af fyrstu kvöldunum hér vorum við Biggi á gangi eftir aðalgötunni og sáum hóp fólks á kirkjutröppum. "Er verið að messa á laugardagskvöldi?" spurði Biggi, hissa. Þegar við komum tilbaka, var aftur hópur fólks á kirkjutröppunum. "Ja hérna, það er nú meira lífið í þessari sókn, ætli skotar séu svona trúaðir? hugsaði ég.
Fljótlega komumst við svo að því að þetta var glæsilegt veitingahús, þar sem plötusnúðurinn athafnar sig í kórnum og kirkjugestir dilla sér glaðlegir fyrir framan hann á milli þess sem þeir skjótast á barinn. Þessi veitingastaður, sem við sáum þarna um kvöldið heitir Soul og til að kóróna sódómuna er líka rekið spilavíti í byggingunni, Soul casino. Það er búið að afhelga fleiri kirkjur og hef ég komið inn á fjóra veitingastaði hér sem eru í gömlum kirkjubyggingum.
Sagan á bak við þetta eru deilur frá 1846 þegar fjöldi fólks skráði sig í fríkirkjur, meðal annars vegna mismunandi sjónarmiða um það hvort það væri hlutverk landeigenda eða söfnuða að velja presta. Í byrjun 20 aldarinnar náðu fyrrum sóknir saman en þá var orðið alltof mikið til af kirkjubyggingum.
Sannkristnir íbúar Aberdeenborgar eru ekki sáttir við þessa þróun og herja á borgaryfirvöld að stoppa ósómann og láta þessar glæsibyggingar fremur í hendurnar á góðgerðarsamtökum.
En á meðan að þúsundir ungra manna (og nokkurra kvenna) vinna á olíuborpöllum, þar sem þeir eru úti í ströngu aðhaldi í þrjár vikur í senn og koma heim í frí í aðrar þrjár, er ásóknin svo mikil í djammið að það verður að notast við kirkjur, sem og annað, til að anna eftirspurninni.
Athugasemdir
Var að koma frá Dublin í hinu allra kaþólskasta landi sem til er og þar fékk ég mér bjór í ægifagurri kirkju.
Hólmfríður (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 12:27
Pabbi var mjög hrifinn af þessu fyrirkomulagi hér því eins og þú manst kannski þá er hann ekkert sérlega trúrækinn maður og fann loksins einhvern tilgang með því að sækja kirkju!
Regína Ásvaldsdottir (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 14:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.