Kuldaboli kominn á kreik

Veðrið hefur verið með eindæmum gott hér í Aberdeen í haust, 10 - 15 stiga hiti dag eftir dag. Í dag var hinsvegar kunnuglegur kuldaboli kominn á kreik með ísköldum næðingi.

Wude bekkjafélagi minn og vinur kom til mín í gær og lýsti fyrir mér áhuga sínum á að fara í helgarferð til Íslands, helst sem allra fyrst. "Ó, nei", varð mér að orði. "Í guðanna bænum, það er svo kalt á Íslandi núna, farðu þegar veðrið er orðið betra".

"En mig langar að sjá snjó á meðan ég er í Evrópu", sagði hann. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að það væri hreint ekkert víst að hann sæi eitt né neitt á þessum árstíma, hann fyki bara á milli húsa.

Hann var ekki sannfærður, og velti fyrir sér hvort hann ætti að fara til Íslands um jólaleytið. Honum fannst mjög sjarmerandi tilhugsun að fara til Íslands og sjá snjó og stjörnubjartan himinn, eins og ég held að hann hafi ímyndað sér Ísland - áður en ég lagði mitt af mörkum til að eyðileggja draumsýnina.

Í morgun kom hann til mín áður en kennslustund hófst, ískaldur, eins og við öll. "Er svona vindasamt á Íslandi?"

Já! 

Hann fékk hroll við tilhugsunina og sannfærðist loksins um að það borgaði sig að bíða með Íslandsferðina fram á vor.

Þökk sé vetrarveðrinu í Aberdeen í dag, þá skildi hann loksins hvað ég átti við með roki og nístingskulda. 

Ég fæ alveg örugglega engin verðlaun frá ferðamálaráði fyrir afstöðu mína því ég viðurkenni að ég bregst alltaf eins við þegar fólk ætlar að fara í þessa einu ferð sem það fer í um ævina til Íslands, yfir hávetur. Ég get ekki hugsað mér að mæla með því að fólk borgi háar fjárhæðir fyrir flug, hótel og ferðir innanlands og lendi í slagviðri eða snjóbyl og sjái ekkert af okkar fallega landi. Ég hef því enga samúð með áætlunum um að fjölga ferðamönnum yfir vetrartímann til að nýta hótelin betur. Getur að vísu verið í fínu lagi fyrir hópa sem koma á ráðstefnur en ekki fyrir fólk sem er gagngert að koma til að skoða landið. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hér gubbast lægðir yfir landið í löngum bunum.  lítið spennandi

baun (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband