10.11.2007 | 22:58
Turnitin og Tjöldin
Unaðsleg tilfinning að sjá á eftir fyrstu alvöru ritgerð haustsins, fara í gegnum "Turnitin" kerfið. Ritgerðin er í faginu fjármál og reikningshald og gildir 20 % af lokaeinkun námskeiðsins. Þrjár ritgerðir til viðbótar eru á dagskrá fyrir jól, svo byrja prófin um miðjan janúar. Ég er bara nokkuð sátt við þetta byrjendaverk, og verð að segja að það er fátt skemmtilegra en að reikna - þegar maður skilur aðferðirnar!
Turnitin kerfið virkar mjög öflugt. Allar ritgerðir nemenda í breskum háskólum fara í gegnum sömu síðuna, sem leitar að orðasamböndum til að kanna hvort um ritstuld sé að ræða. Það er greinilegt að þetta er vandamál, því það kemur ekki svo pappír frá skólanum að það sé ekki varað við að skrifa setningar upp úr bókum eða af netinu án þess að geta heimilda.
Ef kerfið verður vart við eitthvað dularfullt þá er nemandi kallaður á teppið og þarf að gera grein fyrir máli sínu. Ef skýringar eru ekki fullnægjandi þá er það ávísun á fall í viðkomandi fagi.
En nú ætla ég að halda upp á vinnutörn undanfarinna daga og splæsa restinni af kvöldinu í lestur fagurbókmennta. Ætla að leyfa mér að lesa á íslensku, þýðingu Friðriks Rafnssonar nágranna og fyrrum vinnufélaga á ritgerðasafninu Tjöldin eftir Milan Kundera, sem hann færði mér í kveðjugjöf í haust.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.