Háskólaþorpið

daj020Það er ekki hægt að segja annað en að það sé afar vel búið að námsmönnum við háskólann í Aberdeen. Svæðið er eins og lítið þorp, með löggustöð, kirkju, matvöruverslun, pósthúsi, bakaríi, tennisvelli, sundlaug, líkamsræktarstöð og bókasafni fyrir utan allar kennslubyggingarnar.

Nýjasta rósin í hnappagatinu er félagsstofnun stúdenta, glæsileg bygging sem var afhent í lok árs 2006 og nefnist the Hub. Inni í byggingunni eru kaffi- og veitingahús, tölvuver, fundaraðstaða, námsráðgjöf og félagsráðgjöf og það sem ég er hrifnust af, lítil herbergi sem eru kölluð "quiet rooms" en það eru sérherbergi til lestrar. Bókasafnið er líka með góðri lestraraðstöðu en byggingin er komin til ára sinna og er verið að byggja nýtt hús undir það. Rafræna þjónustan er mjög góð og er varla það tímarit á ensku sem ekki finnst í gagnagrunni safnsins.

Það sem er þó mest áberandi er það vinalega andrúmsloft sem ríkir á svæðinu. Þegar við Biggi vorum nýkomin hingað og vorum í leit að nemendaskráningunni vorum við stoppuð af eldri manni. "Þið lítið út fyrir að vera villt, get ég hjálpað ykkur?", spurði hann. Svona viðmót er ekki einsdæmi hér.

Í hverri viku kemur notalegur póstur, annaðhvort boð á einhverja ráðstefnu, menningarviðburð, tilboð um aðstoð við atvinnuleit, nú eða teboð hjá rektor. Allir útlendir námsmenn við skólann fengu boðsbréf frá honum um daginn en hann býður heim í "afternoon tea" í vikunni. Áhuginn var svo mikill hjá erlendu námsmönnunum, líklega af því hann býr í einu fallegasta húsinu á svæðinu, að ekki komast allir að og spurning hvort hann verði að halda fleiri boð.

Ég skráði mig ekki, enda lendir EasyJet vél með Bigga innanborðs á sama tíma og ekki spurning í mínum huga að þó mér finnist afar vel boðið þá vil ég heldur drekka síðdegiste með honum í litlu holunni minni en án hans í höll rektors.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband