20.11.2007 | 23:45
Þykjustuleikir
Ég er svo hugfangin af því sem ég er að gera þessa dagana að ég er nánast ónæm fyrir umhverfinu. Ég þarf að fara í gegnum aðalverslunargötuna úr strætó á leið í og úr skóla. Þó gínurnar æpi úr verslunargluggunum í glæsiflíkum sem ég hefði kannski látið mig dreyma um áður, þá arka ég framhjá og hugsa bara um mikilvægari hluti, eins og hvort mig vanti strokleður!
Einhvers staðar glittir líka í jólin en það sem kemst fyrir í kollinum á mér er hvort það sé hægt að endurstilla vélarnar í Ruritania verksmiðjunni þannig að hún taki stærðirnar 165x235, 114x108 og svo videre.....
Ég hef þann eiginleika (sem sumum finnst galli) að geta orðið heltekin af því sem ég er að gera þá stundina. Ég lifi mig inn í bíómyndir og skáldsögur þannig að ég er'ann í þó nokkurn tíma eftir að ég legg frá mér bók eða geng út úr kvikmyndahúsi. Þessa dagana er ég ráðgjafi fyrir verksmiðju - í skólaverkefni- og algjörlega með það á heilanum hvernig ég get látið fyrirtækið skila hagnaði.
Ég er svo sem ekki ein um þetta því bekkjarfélagar mínir ganga líka um gangana og tauta fyrir munni sér. Allir eru með Ruritania á heilanum. Ekki dugir að koma með almennar klisjur sem svör, aðeins blákaldar "staðreyndir" í þessum þykjustuleik.
Ég á von á því að áður en langt um líður muni nemendur fá verkefni í gegnum tölvuleiki þar sem þeir þurfa að setja á svið viðskiptafundi og aðra atburði úr atvinnulífinu. Þeir þurfa að ver'ann.
Þá erum við ekki komin svo ýkja langt frá leikjunum í félagsráðgjöfinni í gamla daga sem voru kallaðir "rollespil". Þeir fólust í því að nemendur léku fólk í allslags aðstæðum og ásigkomulagi og einn í hópnum fékk það hlutverk hverju sinni að vera félagsráðgjafi og leysa úr hnútunum. Slíkar senur voru gjarnan teknar upp á myndband og síðan fór bekkurinn yfir hvað viðkomandi hefði gert vel og hvað síður.
Já, dúkkuleikirnir í den voru bara aldeilis ágæt æfing fyrir atvinnulífið, ekki síðri en svo margt annað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.