25.11.2007 | 20:38
Beck's í Bergen
Komin heim eftir afar heilsubætandi dvöl í Bergen hjá doktor Beck, Imbu Snú, börnum og buru. Kom til þeirra á Natlandsfjellet grá og guggin eftir skort á fiskneyslu, með verk í baki og fráhvörf vegna of lítillar áfengisneyslu. Úr þessu öllu var bætt. Hvítvín glóði í glösum, feitir og gæðalegir kræklingar voru bornir á borð annað kvöldið og hitt kvöldið var mér boðið í dýrindis skötusel á einum flottasta veitingastaðnum í Bergen. Loks fékk ég almennilega hart rúm til að sofa í og það nægði til að senda alla bakverki á burt.
Þetta var pínulítið nostalgíuferð - í bland við heilsudvölina. Bergen er nefnilega fyrsta erlenda borgin sem ég heimsótti, fyrir rúmlega þrjátíu árum þegar við Bryndís vorum á leið í sumarvinnu á Kviknes hóteli í Balestrand í Sognfirðinum. Ég var dolfallin yfir borginni, dúkkuhúsunum sem héngu í fjöllunum, gróðrinum, bryggjunni... svolítið ólíkt Kópavogi á áttunda áratugnum!
Bergen var stundum sótt heim þessi þrjú sumur sem við unnum í Balestrand og þá var siglt með Expressen. Uppáhaldshljómsveitin var Bergenserer með hið brjálað stuðlag "æ jente fra Bergen" og voru felld mörg saknaðartár yfir kasettunni með þeim, þegar heim á Frón var komið.
Síðasta skiptið sem ég kom til Bergen var haustið 2002 og þá í fylgd Dags B, Björns Bjarna og Árna Þórs, í reisunni góðu sem við fórum um Norðurlönd. Og þessi skemmtilega mynd var tekin af okkur á svölunum í ráðhúsinu í Bergen, með þáverandi borgarstjóra. Eitthvað höfum við nú elst síðan þetta var....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.