26.11.2007 | 19:20
Bækur í stað bloggs
Þá er komið að því. Verkefni og yfirvofandi próf farin að taka til sín, svo bloggbindindi er nauðsynlegt, allavega fram í janúar.
Tíminn sem það tekur að setja inn færslu er ekki svo ýkja mikill. Það er hitt. Um leið og tölvan er komin í fangið þá er svo auðvelt að gleyma sér við að lesa fréttir að heiman, kveikja aðeins á upptöku af Kastljósi, sjá hvað var sagt í Silfrinu, lesa bloggið hans Símonar, baunirnar hennar Betu og svo mætti áfram telja.
Þessvegna er nauðsynlegt að setja það sem markmið að næstu vikurnar verði tölvan einungis notuð til að leita að heimildum, prenta út glærur eða önnur þau viðvik sem tengjast náminu.
Það hefur verið mjög notalegt að blogga í haust. Ég setti strax það markmið að hafa þetta á "lágstemmdum" nótum, þ.e að taka ekki þátt í neinu dægurþrasi á Íslandi heldur einungis að nota bloggið í stað þess að senda tölvupóst.
Meðal dyggustu lesenda minna hafa verið pabbi og Biggi, tengdamamma og Erna María ásamt fjölda góðra vina.
Bestu kveðjur til ykkar allra, sjáumst heima um jólin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.11.2007 | 21:16
Sómastaðir
Jæja, þá er ættaróðalið bara komið á styrk frá Alcoa. Nú dámar mér aldeilis, eins og hún amma myndi segja sem fæddist og ólst upp á bænum Sómastöðum við Reyðarfjörð. Ég skynjaði snemma að Sómastaðir væru á fegursta bletti landsins, þar sem fjörðurinn var svo lygn að fleyta mátti kerlingar dagana langa. Og allur ættboginn fór í sveit á Sómastaði, ég þar með talin, en að vísu bara eitt sumar. Systkinin Hans og Gunna héldu úti búskap fram undir lok áttunda áratugar (síðustu aldar) en þá fór bærinn í eyði.
Langafi minn, sem hét Hans Jakob Beck, eins og Bekkurinn minn í Bergen, byggði húsið og bjó með langömmu, Mekkin. Þau eignuðust á annan tug barna en fyrir átti hann annað eins, með fyrri konu sinni. Hann dó, fljótlega eftir að yngsta barnið fæddist, kannski ekki skrýtið því þá var hann kominn yfir áttrætt. Langamma var þá rétt að verða þrítug. Hún flutti suður með yngsta drenginn en eldri hálfsystkinin tóku hin í fóstur, eitt á mann.
Bærinn þykir mjög sérstakur fyrir það að vera eina portbyggða steinhúsið sem varðveist hefur á Íslandi. Hér í Skotlandi er fjöldi svipaðra húsa og merkilegt nokk, á ferð minni um Bandaríkin síðasta vor, á afar strjálbýlu svæði í Utah, rakst ég á steinbæ frá lok nítjándu aldar sem var nánast eins og Sómastaðir.
Það er nánast súrrealistísk sjón að sjá þennan gamla fallega bæ í hlaðinu við álverksmiðju Alcoa og maður fær á tilfinninguna að minningarbrot um heimalninga, hey og hlöðu, hafi bara verið einhver rómantískur draumur um líf sem aldrei var.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 20:38
Beck's í Bergen
Komin heim eftir afar heilsubætandi dvöl í Bergen hjá doktor Beck, Imbu Snú, börnum og buru. Kom til þeirra á Natlandsfjellet grá og guggin eftir skort á fiskneyslu, með verk í baki og fráhvörf vegna of lítillar áfengisneyslu. Úr þessu öllu var bætt. Hvítvín glóði í glösum, feitir og gæðalegir kræklingar voru bornir á borð annað kvöldið og hitt kvöldið var mér boðið í dýrindis skötusel á einum flottasta veitingastaðnum í Bergen. Loks fékk ég almennilega hart rúm til að sofa í og það nægði til að senda alla bakverki á burt.
Þetta var pínulítið nostalgíuferð - í bland við heilsudvölina. Bergen er nefnilega fyrsta erlenda borgin sem ég heimsótti, fyrir rúmlega þrjátíu árum þegar við Bryndís vorum á leið í sumarvinnu á Kviknes hóteli í Balestrand í Sognfirðinum. Ég var dolfallin yfir borginni, dúkkuhúsunum sem héngu í fjöllunum, gróðrinum, bryggjunni... svolítið ólíkt Kópavogi á áttunda áratugnum!
Bergen var stundum sótt heim þessi þrjú sumur sem við unnum í Balestrand og þá var siglt með Expressen. Uppáhaldshljómsveitin var Bergenserer með hið brjálað stuðlag "æ jente fra Bergen" og voru felld mörg saknaðartár yfir kasettunni með þeim, þegar heim á Frón var komið.
Síðasta skiptið sem ég kom til Bergen var haustið 2002 og þá í fylgd Dags B, Björns Bjarna og Árna Þórs, í reisunni góðu sem við fórum um Norðurlönd. Og þessi skemmtilega mynd var tekin af okkur á svölunum í ráðhúsinu í Bergen, með þáverandi borgarstjóra. Eitthvað höfum við nú elst síðan þetta var....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2007 | 23:45
Þykjustuleikir
Ég er svo hugfangin af því sem ég er að gera þessa dagana að ég er nánast ónæm fyrir umhverfinu. Ég þarf að fara í gegnum aðalverslunargötuna úr strætó á leið í og úr skóla. Þó gínurnar æpi úr verslunargluggunum í glæsiflíkum sem ég hefði kannski látið mig dreyma um áður, þá arka ég framhjá og hugsa bara um mikilvægari hluti, eins og hvort mig vanti strokleður!
Einhvers staðar glittir líka í jólin en það sem kemst fyrir í kollinum á mér er hvort það sé hægt að endurstilla vélarnar í Ruritania verksmiðjunni þannig að hún taki stærðirnar 165x235, 114x108 og svo videre.....
Ég hef þann eiginleika (sem sumum finnst galli) að geta orðið heltekin af því sem ég er að gera þá stundina. Ég lifi mig inn í bíómyndir og skáldsögur þannig að ég er'ann í þó nokkurn tíma eftir að ég legg frá mér bók eða geng út úr kvikmyndahúsi. Þessa dagana er ég ráðgjafi fyrir verksmiðju - í skólaverkefni- og algjörlega með það á heilanum hvernig ég get látið fyrirtækið skila hagnaði.
Ég er svo sem ekki ein um þetta því bekkjarfélagar mínir ganga líka um gangana og tauta fyrir munni sér. Allir eru með Ruritania á heilanum. Ekki dugir að koma með almennar klisjur sem svör, aðeins blákaldar "staðreyndir" í þessum þykjustuleik.
Ég á von á því að áður en langt um líður muni nemendur fá verkefni í gegnum tölvuleiki þar sem þeir þurfa að setja á svið viðskiptafundi og aðra atburði úr atvinnulífinu. Þeir þurfa að ver'ann.
Þá erum við ekki komin svo ýkja langt frá leikjunum í félagsráðgjöfinni í gamla daga sem voru kallaðir "rollespil". Þeir fólust í því að nemendur léku fólk í allslags aðstæðum og ásigkomulagi og einn í hópnum fékk það hlutverk hverju sinni að vera félagsráðgjafi og leysa úr hnútunum. Slíkar senur voru gjarnan teknar upp á myndband og síðan fór bekkurinn yfir hvað viðkomandi hefði gert vel og hvað síður.
Já, dúkkuleikirnir í den voru bara aldeilis ágæt æfing fyrir atvinnulífið, ekki síðri en svo margt annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2007 | 08:34
Tilstand á Union Grove
Jæja, Biggi farinn í flug og óhætt að uppljóstra um allt tilstandið sem hefur átt sér stað hér á Union Grove vegna komu hans.
Fór eins og stormsveipur um íbúðina með Ajaxið að vopni, svo nú glansar á gólf og hreinlætistæki, þvottur blaktir á snúru og kerti og blóm komin í stað skólabóka á stofuborðið. Búin að bera heim osta og annað góðgæti úr sælkerabúðinni og hvítvínið komið í kælinn.
Mikilvægasta aðgerðin var þó heimsóknin á hárgreiðslustofuna, til hennar Dagmar á Ishoka, þar sem var litað, klippt og blásið.
Dagmar er snillingur og ég var afskaplega ánægð með að hafa haft upp á henni. Ég var nefnilega búin að ákveða að sleppa því frekar að fara á stofu heldur en að hleypa einhverjum "ókunnugum" í háríð á mér. Auðvitað eru þetta svolitlir mafíutaktar, að vilja bara versla við sitt eigið fólk! Ég er hinsvegar viss um að ef það yrði gerð könnun á meðal íslenskra kvenna erlendis og spurt hvers þær söknuðu mest að heiman að þá kæmu hárgreiðslukonur/menn fljótlega á eftir tæra loftinu á listanum.
Eins og endranær þegar von er á góðum gestum þá ætla ég að hvíla bloggið og njóta lífsins í raunheimum, heyrumst eftir helgi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.11.2007 | 21:18
Háskólaþorpið
Það er ekki hægt að segja annað en að það sé afar vel búið að námsmönnum við háskólann í Aberdeen. Svæðið er eins og lítið þorp, með löggustöð, kirkju, matvöruverslun, pósthúsi, bakaríi, tennisvelli, sundlaug, líkamsræktarstöð og bókasafni fyrir utan allar kennslubyggingarnar.
Nýjasta rósin í hnappagatinu er félagsstofnun stúdenta, glæsileg bygging sem var afhent í lok árs 2006 og nefnist the Hub. Inni í byggingunni eru kaffi- og veitingahús, tölvuver, fundaraðstaða, námsráðgjöf og félagsráðgjöf og það sem ég er hrifnust af, lítil herbergi sem eru kölluð "quiet rooms" en það eru sérherbergi til lestrar. Bókasafnið er líka með góðri lestraraðstöðu en byggingin er komin til ára sinna og er verið að byggja nýtt hús undir það. Rafræna þjónustan er mjög góð og er varla það tímarit á ensku sem ekki finnst í gagnagrunni safnsins.
Það sem er þó mest áberandi er það vinalega andrúmsloft sem ríkir á svæðinu. Þegar við Biggi vorum nýkomin hingað og vorum í leit að nemendaskráningunni vorum við stoppuð af eldri manni. "Þið lítið út fyrir að vera villt, get ég hjálpað ykkur?", spurði hann. Svona viðmót er ekki einsdæmi hér.
Í hverri viku kemur notalegur póstur, annaðhvort boð á einhverja ráðstefnu, menningarviðburð, tilboð um aðstoð við atvinnuleit, nú eða teboð hjá rektor. Allir útlendir námsmenn við skólann fengu boðsbréf frá honum um daginn en hann býður heim í "afternoon tea" í vikunni. Áhuginn var svo mikill hjá erlendu námsmönnunum, líklega af því hann býr í einu fallegasta húsinu á svæðinu, að ekki komast allir að og spurning hvort hann verði að halda fleiri boð.
Ég skráði mig ekki, enda lendir EasyJet vél með Bigga innanborðs á sama tíma og ekki spurning í mínum huga að þó mér finnist afar vel boðið þá vil ég heldur drekka síðdegiste með honum í litlu holunni minni en án hans í höll rektors.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2007 | 22:58
Turnitin og Tjöldin
Unaðsleg tilfinning að sjá á eftir fyrstu alvöru ritgerð haustsins, fara í gegnum "Turnitin" kerfið. Ritgerðin er í faginu fjármál og reikningshald og gildir 20 % af lokaeinkun námskeiðsins. Þrjár ritgerðir til viðbótar eru á dagskrá fyrir jól, svo byrja prófin um miðjan janúar. Ég er bara nokkuð sátt við þetta byrjendaverk, og verð að segja að það er fátt skemmtilegra en að reikna - þegar maður skilur aðferðirnar!
Turnitin kerfið virkar mjög öflugt. Allar ritgerðir nemenda í breskum háskólum fara í gegnum sömu síðuna, sem leitar að orðasamböndum til að kanna hvort um ritstuld sé að ræða. Það er greinilegt að þetta er vandamál, því það kemur ekki svo pappír frá skólanum að það sé ekki varað við að skrifa setningar upp úr bókum eða af netinu án þess að geta heimilda.
Ef kerfið verður vart við eitthvað dularfullt þá er nemandi kallaður á teppið og þarf að gera grein fyrir máli sínu. Ef skýringar eru ekki fullnægjandi þá er það ávísun á fall í viðkomandi fagi.
En nú ætla ég að halda upp á vinnutörn undanfarinna daga og splæsa restinni af kvöldinu í lestur fagurbókmennta. Ætla að leyfa mér að lesa á íslensku, þýðingu Friðriks Rafnssonar nágranna og fyrrum vinnufélaga á ritgerðasafninu Tjöldin eftir Milan Kundera, sem hann færði mér í kveðjugjöf í haust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2007 | 15:22
Blómastúlka drottningar
Þær eru stundum skemmtilega skrýtnar fréttirnar sem rata í fjölmiðla hérna. Í Daily Express í gær mátti lesa viðtal við unga konu, 33 ára (blöðin tilgreina alltaf aldur viðmælenda) sem vonaðist til að móðir hennar (52) næði heilsu eftir alvarlega reykeitrun. Hún bætti síðan við að þetta væri þriðji bruninn sem móðirin lenti í á mánuði og hún hefði stuðlað að þeim öllum sjálf.
"Eins gott að hún er ekki búin að drepa nágrannana", bætti dóttirin við. Mömmunni, sem annast blómin í Balmoral kastala, var fyrst bjargað af slökkviliðinu fyrir mánuði síðan þegar eldur kveiknaði í svefnherberginu hennar. Sú gamla hafði verið á krá, komið heim og lagst í rúmið og kveikt sér í rettu. Sofnaði svo út frá sígarettunni og kveikti auðvitað í. Henni og eiginmanninum var bjargað af Grampian Fire and Rescue.
Næst var hún að skemmta sér á Balmoral bar. Fór út að reykja, drap í sígarettunni og setti stubbinn í töskuna sína. Fór svo inn og spjallaði við mann og annan þegar henni var bent á að það stæðu logar upp úr töskunni. "Hún fattaði þetta ekki einu sinni sjálf" sagði dóttirin pirraða.
Sólarhring síðar kom blómastúlkan heim af ralli, settist í sófann í stofunni og fékk sér eina fyrir háttinn. Það vildi ekki betur til en að hún sofnaði og kveikti aftur í húsinu. Henni var bjargað sem fyrr af Grampian Fire and Rescue og nú fengu þeir liðsauka frá konunglega slökkviliðinu í Balmoral kastala. Eiginmaðurinn tók þátt í björgunaraðgerðum og liggja nú hjónin bæði á ríkisspítalanum í Aberdeen.
Maður vonar auðvitað að þau nái góðri heilsu og það væri ekki verra fyrir nágrannana ef blómastúlkan fengi sér einbýlishús eða alla vega góðan reykskynjara ef hún ætlar að halda uppteknum venjum áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.11.2007 | 23:25
Kuldaboli kominn á kreik
Veðrið hefur verið með eindæmum gott hér í Aberdeen í haust, 10 - 15 stiga hiti dag eftir dag. Í dag var hinsvegar kunnuglegur kuldaboli kominn á kreik með ísköldum næðingi.
Wude bekkjafélagi minn og vinur kom til mín í gær og lýsti fyrir mér áhuga sínum á að fara í helgarferð til Íslands, helst sem allra fyrst. "Ó, nei", varð mér að orði. "Í guðanna bænum, það er svo kalt á Íslandi núna, farðu þegar veðrið er orðið betra".
"En mig langar að sjá snjó á meðan ég er í Evrópu", sagði hann. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að það væri hreint ekkert víst að hann sæi eitt né neitt á þessum árstíma, hann fyki bara á milli húsa.
Hann var ekki sannfærður, og velti fyrir sér hvort hann ætti að fara til Íslands um jólaleytið. Honum fannst mjög sjarmerandi tilhugsun að fara til Íslands og sjá snjó og stjörnubjartan himinn, eins og ég held að hann hafi ímyndað sér Ísland - áður en ég lagði mitt af mörkum til að eyðileggja draumsýnina.
Í morgun kom hann til mín áður en kennslustund hófst, ískaldur, eins og við öll. "Er svona vindasamt á Íslandi?"
Já!
Hann fékk hroll við tilhugsunina og sannfærðist loksins um að það borgaði sig að bíða með Íslandsferðina fram á vor.
Þökk sé vetrarveðrinu í Aberdeen í dag, þá skildi hann loksins hvað ég átti við með roki og nístingskulda.
Ég fæ alveg örugglega engin verðlaun frá ferðamálaráði fyrir afstöðu mína því ég viðurkenni að ég bregst alltaf eins við þegar fólk ætlar að fara í þessa einu ferð sem það fer í um ævina til Íslands, yfir hávetur. Ég get ekki hugsað mér að mæla með því að fólk borgi háar fjárhæðir fyrir flug, hótel og ferðir innanlands og lendi í slagviðri eða snjóbyl og sjái ekkert af okkar fallega landi. Ég hef því enga samúð með áætlunum um að fjölga ferðamönnum yfir vetrartímann til að nýta hótelin betur. Getur að vísu verið í fínu lagi fyrir hópa sem koma á ráðstefnur en ekki fyrir fólk sem er gagngert að koma til að skoða landið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.11.2007 | 15:08
Ólíkt hafast mennirnir að
Það er hægt að nota þekkingu í viðskipta- og hagfræði til ólíkra verka.
Í gær heyrði ég af "snjöllum" kaupsýslumanni sem stundar það að fylgjast með uppboðum á húseignum. Hann heimsækir viðkomandi skuldara, áður en uppboðið er haldið og býðst til að kaupa viðkomandi eign þannig að hægt sé að borga skuldir og komast hjá uppboðinu. Hann kaupir eignirnar auðvitað langt undir markaðsverði. Ekki nóg með það, síðan býður hann fólki að leigja viðkomandi húsnæði. Eftir einhvern tíma er fólki svo boðið að kaupa eignina aftur, en þá á markaðsverði!
Flestir hafa heyrt um Muhammed Yunus, sem fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2006. Hann er hagfræðingur og var að kenna við Chittagong háskóla í Bangladesh árið 1975 þegar það varð uppskerubrestur og fjöldi heimila missti lífsviðurværið.
"I used to get excited teaching my students how economic theories provided answers to economic problems. I got carried away by the beauty and elegance of these theories...(but) What good were all these elegant theories when people died of starvation on pavements and on doorsteps......where was the economic theory which reflected their real life? I felt that I had to escape from the academic life. I wanted to discover the real-life economics that were played out every day in the neighbouring villages...I opted for what I called the the 'worm´s eye view' "(Yunus, 2003: 4-5)
Eftirleikinn þekkja margir, Yunus stofnaði banka sem lánar til fátækra en konur eru 97 % af lánþegum. Hér má sjá eitt af fjölmörgum viðtölum við Yunus sem má finna á YouTube.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)