6.11.2007 | 14:34
Djammað í kirkjum
Eitt af því sem vakti undrun mína þegar ég kom hingað var að uppgötva að stórar og glæsilegar kirkjur eru notaðar undir bari og veitingahús. Eitt af fyrstu kvöldunum hér vorum við Biggi á gangi eftir aðalgötunni og sáum hóp fólks á kirkjutröppum. "Er verið að messa á laugardagskvöldi?" spurði Biggi, hissa. Þegar við komum tilbaka, var aftur hópur fólks á kirkjutröppunum. "Ja hérna, það er nú meira lífið í þessari sókn, ætli skotar séu svona trúaðir? hugsaði ég.
Fljótlega komumst við svo að því að þetta var glæsilegt veitingahús, þar sem plötusnúðurinn athafnar sig í kórnum og kirkjugestir dilla sér glaðlegir fyrir framan hann á milli þess sem þeir skjótast á barinn. Þessi veitingastaður, sem við sáum þarna um kvöldið heitir Soul og til að kóróna sódómuna er líka rekið spilavíti í byggingunni, Soul casino. Það er búið að afhelga fleiri kirkjur og hef ég komið inn á fjóra veitingastaði hér sem eru í gömlum kirkjubyggingum.
Sagan á bak við þetta eru deilur frá 1846 þegar fjöldi fólks skráði sig í fríkirkjur, meðal annars vegna mismunandi sjónarmiða um það hvort það væri hlutverk landeigenda eða söfnuða að velja presta. Í byrjun 20 aldarinnar náðu fyrrum sóknir saman en þá var orðið alltof mikið til af kirkjubyggingum.
Sannkristnir íbúar Aberdeenborgar eru ekki sáttir við þessa þróun og herja á borgaryfirvöld að stoppa ósómann og láta þessar glæsibyggingar fremur í hendurnar á góðgerðarsamtökum.
En á meðan að þúsundir ungra manna (og nokkurra kvenna) vinna á olíuborpöllum, þar sem þeir eru úti í ströngu aðhaldi í þrjár vikur í senn og koma heim í frí í aðrar þrjár, er ásóknin svo mikil í djammið að það verður að notast við kirkjur, sem og annað, til að anna eftirspurninni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.11.2007 | 18:09
Varðveisla götumyndar
Fór í langan göngutúr áðan um hverfin hér í kring sem eru með mörgum óendanlega fallegum byggingum, bæði íbúðarhús og ekki síður húsnæði fyrirtækja. Svo eru náttúrulega kirkjur á hverju horni og skrúðgarðar. Auk þess að vera kölluð the Granit City er Aberdeen líka kölluð the flower of Scotland sökum fjölmargra skrúðgarða með litskrúðugu blómahafi.
Það sem vakti athygli mína þegar ég gekk þrönga stíga á milli gatna, þar sem bakgarðar húsa mættust, voru afar nýtískulegar og oft stórar viðbyggingar. Þessar viðbyggingar sjást ekki nema farið sé aftan við húsin og því er götumyndin að framan heilleg og falleg.
Ég hafði nefnilega ekki áttað mig á því fyrr en ég sá þetta, hvernig í ósköpunum umsvifamikil fyrirtæki eins og PriceWaterhouseCoopers og KPMG komast fyrir í þessum fallegu gömlu húsum, sem virka einungis á stærð við hefðbundin einbýlishús. En þarna var svarið komið, það er annað eins rými, og jafnvel meira, falið á bak við húsin. Með þessu móti getur borgin varðveitt heilu hverfin í upprunalegri mynd en samt sem áður geta eigendur stækkað húsin verulega og innréttað samkvæmt nýjustu kröfum. Eitthvað sem við gætum lært af?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.11.2007 | 11:52
Íslenska útrásin í Aberdeen.
Ég er búin að uppgöva að íslenska útrásin nær auðvitað til Aberdeen eins og annarra staða í heiminum. Íslendingar reka hér flugfélag, CityStar, sem er með beint flug til Stavanger og nokkurra annarra borga í Noregi og það nýjasta er beint flug til Houston í Texas fjórum sinnum í viku. Flugfélagið er í raun byggt upp í kringum olíuiðnaðinn. Svo er Nýsir með stórt verk hérna, nýbyggingar og viðbyggingar á 10 skólum og íþróttamannvirki ásamt rekstri bygginganna.
Í gærkveldi frétti ég svo að það væri íslensk hárgreiðslukona hér og fylltist miklu öryggi við þá frétt!
Ég var áður búin að uppgötva Arnar sem er að kenna mannfræði hér. Ég sá mynd af honum og frétt á heimasíðu háskólans í haust en hann var einn þriggja kennara sem fengu verðlaun fyrir framúrskarandi kennslu. Í gærkveldi var ég í boði hjá honum og Huldu konunni hans ásamt Albertínu, nema í framhaldsnámi í landafræði. Þar var ákveðið að hefja undirbúning að jólahlaðborði fyrir Íslendinga sem búa hér, sem haldið verður í byrjun desember.
Það er ekki skrýtið að Íslendingar hasli sér völl hérna í borginni. Tækifærin blasa við því olíuauðurinn streymir inn og það er mikill uppgangur. Maður skynjar það á byggingaframkvæmdunum og svo er hver sérvöruverslunin á fætur annarri að opna, ýmist með sælkerafæði eða fínar og dýrar merkjavörur. Það er því allt útlit fyrir að ræstingavörubúðirnar og hjálpræðishersmarkaðirnir á aðalgötunni muni smátt og smátt víkja fyrir nýjum verslunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2007 | 17:19
Marianne Faithfull
Bloggar | Breytt 3.11.2007 kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.11.2007 | 11:03
Annar nóvember
Í dag á Erna María mín afmæli en hún er í Flórída að safna flugtímum og er örugglega einhversstaðar í háloftunum á meðan ég er að pára þetta.
En Erna María er ekki ein um að eiga afmæli því tvær bestu vinkonur hennar, Hrefna og Kristín Soffía eiga líka afmæli í dag. Þær komu allar í heiminn á Landsspítalanum 2. nóvember 1981. Þar mættumst við mömmurnar á sloppunum á göngunum, grunlausar um að litlu stúlkubörnin okkar yrðu svona nánar vinkonur síðar á lífsleiðinni.
Þær kynntust allar í fyrsta bekk í MH og afmælisdagurinn uppgötvaðist ekki fyrr en líða tók á haustið. Síðan þá hafa verið haldin ófá sameiginleg afmælispartý.
Og af því Erna er einn ötulasti stuðningsmaður og lesandi þessarar heimasíðu þá er við hæfi að senda afmæliskveðjuna í beinni; til hamingju með daginn elsku Erna María!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.11.2007 | 20:06
Bekkurinn minn
Spakur maður sem ég hitti í sundi, rétt áður en ég fór hingað út til náms, sagði aðspurður að ég kæmist fljótlega að því í skólanum að aldurinn skipti engu máli. Þetta snerist allt um "karaktera". Hann talaði af reynslu eftir framhaldsnám í Edinborg fyrir nokkrum árum. Ég gæti varla verið meira sammála. Aldur, kyn, reynsla, þjóðerni; allt skolast þetta í burtu í hita leiksins og fólk hópar sig saman án tillits til þessara ytri einkenna. Við erum öll búin að festa okkur sæti í fyrirlestrarsalnum eftir nokkrar þreifingar í byrjun. Ég sit á milli tveggja skarpgreindra og skemmtilegra stelpna, önnur frá Ghana með háskólapróf í ensku og hin er sálfræðingur frá Póllandi. Þær eru báðar 24 ára. Við tilheyrum lítilli klíku og eru flestir aðrir í hópnum okkar með háskólapróf í hagfræði.
Á mánudagskvöldum er stundað svokallað "pub quiz" á kránni Illicit og við hittumst líka til að fara yfir niðurstöður verkefna. Eins og ég hef áður skrifað þá hafa námskeiðin í haust snúist afar mikið um útreikninga af ýmsu tagi. Verðlagningu, afleiður, bestun, núvirðingu og lengi mætti telja. Mér hefur auðvitað fundist ég vera meira í því að þiggja fróðleik annarra (hagfræðinganna) við úrlausn verkefna heldur en að ausa úr mínum viskubrunni. Ég varð því afskaplega stolt yfir því að graf sem ég gerði í einu verkefnanna skuli nú vera meðal eftirsóttustu vörunnar á svæðinu. Ég hef ekki undan að senda það til bekkjarfélaganna og á inni niðurstöður í dæmum um ókomna tíð sem þakklætisvott!
Ég er gríðarlega ánægð með litla hópinn minn og bekkinn í heild en við erum yfirleitt um eitt hundrað í fyrirlestrum og um tuttugu í dæmatímum. Það ríkir mikill húmor í kennslustundum og það ríkir sannarlega alþjóðlegur andi í hópnum því við komum frá 30 - 40 löndum. Og maður kemst fljótlega að því að það er ekki nóg með að hjörtu mannanna slái eins í Súdan og á Grímsnesinu, heldur líka í þeim tvítugu sem og þeim hálffimmtugu!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2007 | 21:36
Magnaður fyrirlestur
Þó fyrirlestrarnir í skólanum séu yfirleitt mjög áhugaverðir þá jafnast þeir ekki á við þennan sem Biggi sendi mér. Þvílík framsetning gagna.
Svo því sé til haga haldið þá veit ég ekki alveg hvort ég nái inn í Simpansa hópinn.
Njótið vel!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2007 | 20:55
Ég er svo aldeilis hissa
Ég hélt að það væri leitun að Íslendingum í Aberdeen en samkvæmt þessari frétt, þá eru þeir all víðförulir og uppátektarsamir. Þetta er vægast sagt frumleg aðferð við að verða sér úti um aur, að finna fjórmenning við drottningu í ástarleik í kókaínvímu.
Já það er mun meira á seyði í Aberdeen en manni hefði grunað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2007 | 17:12
Flott brúðarföt
Í miðju argaþrasinu um hjónabönd samkynhneigðra kom þetta flotta innslag í Kastljósi á föstudag. Nemendur í viðskiptafræði við HR og hönnun við Listaháskólann tóku höndum saman og hönnuðu glæsileg brúðarföt fyrir lesbíur.
Aldrei hafði ég hugsað út í það að það gæti verið flókið fyrir tvær konur sem giftast að finna falleg brúðarföt. En auðvitað getur það verið snúið því eins og hönnuður brúðarfatnaðarins segir í viðtalinu í Kastljósi þá er kannski ekkert skemmtilegt fyrir konurnar að mæta báðar í kirkjuna í "rjómatertukjólum".
Og svona til að gera þetta innslag í Kastljósinu enn áhugaverðara þá er hún Ýr mín ein af fyrirsætunum á þessari nemendasýningu. Hún er í glæsilegum svörtum brúðarkjól undir hvítu slöri (þaki) og tekur sig auðvitað vel út að vanda.
Frumlegt og skemmtilegt verkefni hjá ungum og upprennandi hönnuðum og viðskiptamógúlum!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.10.2007 | 17:24
Glaðlyndi grænmetissalinn og aðrir góðir grannar
Ég er svo heppin að búa nálægt afburðagóðri grænmetisverslun sem er með eitt mesta úrval af fersku grænmeti sem ég hef séð hér í Aberdeen. Ali, eigandinn er alltaf til í að spjalla og hefur mikinn metnað fyrir hönd verslunarinnar. Í nótt var hann í Glasgow, eins og endranær og var mættur á markaðinn þar klukkan tvö, til að fá bestu vörurnar. Það er aðeins einn grænmetismarkaður fyrir allt Skotland, og hann er í Glasgow. Markaðurinn er opinn frá 2 á nóttunni til níu á morgnana. Ali hleður sendiferðabílinn sinn og keyrir grænmetinu fersku til Aberdeen. Hann sagðist ekki hafa sofið síðan á miðvikudagsnótt og var orðinn nokkuð þreyttur þegar ég leit til hans áðan að kaupa basilikum og tómata. Ég fékk mér svo tvöfaldan espressó á heimleiðinni og leit í blöðin á Rocksalt&snail sem er bæði kaffihús og sælkeraverslun, hér rétt handan við hornið.
Á föstudögum er "frí" í skólanum en ég kvarta ekki yfir verkefnaskorti. Bækurnar brosa til mín úr öllum áttum og biðja um að vera lesnar. Og hvað er betra á föstudagskvöldi en að hjúfra sig í sófa, narta í tómatsalat með mozzarella og lesa Introduction to Accounting and Finance.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)