999

Lögreglan í Aberdeen er með auðvelt númer, 999. Lenti í því í kvöld að þurfa að kalla út lögreglu þar sem hvein í öryggiskerfi íbúðarinnar fyrir neðan mig. Hljóðið í kerfinu var svo hávært að  nágrannar í næstu húsum drifu að og fussuðu og sveiuðu og vildu frið. Sem eini fulltrúi stigagangsins, sem var heima, varð ég að axla þá ábyrgð að finna út hvort um var að ræða þjófavarnarkerfi, brunavarnakerfi eða gasleka. Íbúðin er nýlega seld og enginn býr í henni sem stendur. Lánaði löggunni stól til að standa upp á og kíkja í gluggann sem er staðsettur fyrir ofan  inngöngudyr íbúðarinnar. Auk þess sem löggurnar hér eru smávaxnar miðað við Geir Jón og félaga heima þá er lofthæð íbúða hér miklu meiri en gengur og gerist á Íslandi. Litlu löggurnar klifruðu semsagt upp á stólinn og kíktu inn um gluggann. En viti menn að á meðan loftfimleikum þeirra stóð fór að draga úr óhljóðum uns þau dóu út. Batteríð tómt eða var þetta kannski bara gömul vekjaraklukka eftir allt saman? 

Reyktur fiskur í mjólk

Fékk gamaldags og hefðbundinn skoskan alþýðumat í boði um daginn. Reyktan fisk og kartöflustöppu í heitri mjólk. Með þessu var veitt dýrindis rauðvín. Brauðsúpan sem Gunna frænka á Sómastöðum bar fram á sunnudögum bliknaði við samanburðinn, hvað þá hræringurinn með súra slátrinu. Maturinn smakkaðist þó betur en á horfðist, enda nostrað við hann af gæsku og gestrisni.

Á slóðum forfeðra

Á leiðinni hingað norður vitjaði ég fæðingarbæ langa - langa - langafa míns. Richards Long. Ég hef alltaf haldið upp á söguna um hann, sem hún amma mín sagði mér frá á góðum stundum. Hann fæddist nálægt bænum Howden í Yorkhéraði. Þar ólst hann upp ásamt foreldrum og systkinum. Það blundaði í honum ævintýraþrá og þegar hann var 12 ára réði hann sig á flutningaskip í óþökk foreldra sinna.  Eftir nokkurra mánaða útivist réðust franskir sjóræningjar á skipið og drápu alla nema hann. Skipstjórinn tók hann að sér og hann sigldi með ræningjunum um heimsins höf. Þegar skipið kom að ströndum Jótlands í vonskuveðri strandaði það og hlaust af mikill mannsskaði, allir um borð létu lífið, nema hann. Hann var tekinn í fóstur af amtsmanni í Lemvig og ólst þar upp við gott atlæti. Síðar var hann sendur  til Eskifjarðar, til að stofna verslun í umboði konungs. Frá honum er kominn afar stór og mikill ættbogi sem teygði sig til Reyðarfjarðar og annarra þorpa á austurlandi.

Howden er lítill og krúttlegur bær og ég undi mér vel á bæjarpöbbnum í skjóli fjarskyldra ættingja. Svei mér þá ef það glitti ekki í rautt hár á höfðum helstu drykkjuboltanna.


Marmelaðiborgin

Keyrði framhjá Dundee í kvöld. Sagan segir að endur fyrir löngu hafi skip strandað við sker nálægt borginni með farminn fullan af appelsínum. Húsmæður þyrptust að skipinu og tóku þennan framandi varning og gerðu það eina sem þær kunnu, suðu hráefnið í mauk. Þannig varð marmelaðið til. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það.

Bækur fyrir heimskingja

booksDummies bækurnar eru í algjöru uppáhaldi hjá mér. Fyrsta bókin sem ég keypti mér í Skotlandi var grundvallarritið  Scotland for Dummies eftir Barry Shelby. Í henni má meðal annars lesa um helstu orðin sem notuð eru í Skotlandi, eins og hen sem þýðir kona og lad sem þýðir strákur. Höfundur leyfir sér að tala frjálslega um Skotland og skota út frá eigin forsendum og virðist algjörlega  laus við kurteisislegt yfirborðshjal eða þjónkun við tiltekna ferðaþjónustuaðila.  Ég mæli með Dummies bókunum til allra nota. Til hvers að lesa flóknar bækur um einföld atriði ef hægt er að komast hjá því?

 


Heilsaði hún mér drottningin og hló að mér um leið

royal_familyErtu að segja mér að takkinn á myndavélinni hafi frosið um leið og drottningin ók framhjá, spurði ég Bigga, manninn minn,  titrandi röddu. Búin að híma fyrir utan Balmoral kastala í tíu mínútur til að kasta kveðju á drottningu og svo næst engin mynd af herlegheitunum! 

Drottning var í grænni dragt með grænan hatt. Philip var svartklæddur. Þau voru að koma úr messu. Þrjár hversdagslegar löggur  með gamaldags talstöðvar og  eitt reiðhjól sem helsta öryggisviðbúnað gættu þess að allt færi vel fram. Í viðbót við  okkur Bigga voru nokkrir þýskir túristar fyrir utan inngangshliðið þegar hinn konunglegi bílstjóri renndi í hlað. Hann hægði á ferðinni, Elizabeth veifaði og Philip brosti breitt.  Það fór kliður um hópinn, ekki á hverjum degi sem stirnir á slíkar stjórstjörnur í návígi. Skotar kippa sér lítið upp við tilstandið í kringum hin konungsbornu. Þeir telja einfaldlega að drottning hafi gott af dvölinni hér og nóg er af haustverkunum.  Hálandaleikarnir í Braemar nýafstaðnir og hinn árlegi Whiskýsmökkunardagur í bruggverksmiðju kastalans. Það er ekki lítil ábyrgð sem drottning hefur, að segja af eða á um framleiðslu ársins.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband