Borgaraleg óþekkt í boði BBC

BBC heldur úti sérstakri heimasíðu sem er kölluð Action Network

Á síðunni má meðal annars finna leiðbeiningar um það hvernig eigi að skipuleggja mótmæli, boða til funda, skrifa fundargerðir, hafa samband við fjölmiðla osfrv.

Þessi vefsíða er ólík öðrum bloggsíðum, segir í kynningu BBC. Ekki er gert ráð fyrir að fólk láti einungis skoðanir sínar í ljós með hefðbundnu bloggnöldri heldur taki þátt í að breyta nánasta umhverfi til betri vegar.

Með síðunni er BBC jafnt að hvetja fólk til góðverka fyrir nágranna sína, sem og til uppreisnar gegn yfirvöldum en á löglegan og friðsamlegan  hátt.

 


Með Bush á náttborðinu

BushGunna, vinkona mín, gaf mér dúkku í kveðjugjöf áður en ég hélt hingað til Skotlands. Dúkkan gengur undir nafninu Smush Bush .

Hún á fastan sess á náttborðinu, 50 æfingar að kvöldi og 50 að morgni.

Eins og segir í auglýsingu fyrir Bush Doll þá er kjörin leið að kreista Bush karlinn kvölds og morgna  til að fá útrás fyrir allar pólitískar frústrasjónir, og styrkja upphandleggina um leið.

Ég sný að vísu andlitinu á honum að veggnum þegar ég fer að sofa, svo ég fái ekki martraðir á nóttunni .

 

  


Alein í Aberdeen

Ég er svo heppin að hafa kynnst yndislegum hjónum sem búa í Aberdeen, Mary og Nigel. Tengdaforeldrar mínir, Auður og Páll, kynntu mig fyrir þeim en þau hafa dvalið í nokkur skipti hér í Aberdeen. Páll kom hingað meðal annars í rannsóknarleyfi frá HÍ. Nigel er heimspekingur, hefur mikinn áhuga á umhverfissiðfræði og mun meðal annars kenna við HÍ nú í haust. Mary er menntuð í landafræði en hefur starfað við ferðabransann um árabil. Þau hugsa um mig eins og ég væri þeirra eigin dóttir. Komin með plöntur úr garðinum þeirra í gluggakistuna í stofunni, epli, sem ég þarf að vísu að sjóða (ekki enn búin að koma því í verk),  súkkulaðikex frá Faire Trade samtökunum,  bláberjavín og svo fékk ég auðvitað reykta fiskinn.

Mary er dugleg að hringja og athuga hvernig ég hef það og benda mér á staði og viðburði. Ekki amalegt að eiga svona góða að. Ég bý ein í fyrsta skipti á ævinni. Ég hef auðvitað búið ein með stelpunum mínum áður, bæði í Noregi og á Sauðarkróki. En það er allt annað. Þá snerist heimilislífið um þær og það mynduðust tengsl undir eins við aðra foreldra í gegnum íþróttir og aðrar tómstundir. Það næsta sem ég hef komist því að búa ein var  í skíðabænum Geilo í Noregi. Ég vann þar einn vetur, á milli 2 og 3 bekkjar í menntó. Að vísu bjó ég í hálfgerðri kommúnu með vinnufélögunum, en hafði þó nokkurt prívatlíf.

En núna bý ég semsagt alein í íbúð. Og finnst allt í drasli, snúrum og fötum og bókum og bollum og umslögum. Svo er brjálað að gera í tæknimálum heimilisins. Ég er endalaust að kveikja og slökkva á gashitaranum, rosalega patent, en er ekki alveg búin að átta mig á hvað snýr upp og hvað niður. Er enn með sjóræningja nettengingu, og þarf því að færa tölvuna svolítið fram og aftur. Svo eru það hátalararnir, sem þurfa að fylgja með, á ferðalaginu um íbúðina, má ekki missa af fréttunum á Rúv. Heyrnartækið eltir mig líka, ef Biggi skyldi hringja á Skypinu á meðan ég er stödd í vestari hluta stofunnar.... og lengi mætti telja. Guðs mildi ef ég á ekki eftir að flækjast í þessu fargani og detta illilega. Gott að Biggi kemur um næstu helgi, ef ég skildi liggja hér bjargarlaus!


Ekki er ráð nema í tíma sé tekið

Á undanförnum tveimur árum hafa skosk yfirvöld lagt mikið upp úr því að fá vel menntaða útlendinga til starfa í Skotlandi. Með það að markmiði settu þeir af stað verkefnið Fresh Talent en erlendir námsmenn geta skráð sig og fengið atvinnuleyfi í tvö ár eftir útskrift. Á föstudaginn hélt fulltrúi Atvinnumiðlunar námsmanna kynningu á þjónustu við námsmenn en hún hvatti þá sem hafa áhuga á starfi að ganga frá umsókn sem allra fyrst því algengt er að fyrirtæki byrji að undirbúa ráðningar í áhugaverð störf, 9-12 mánuðum áður en starfið losnar. Mér finnst þetta mjög athyglisvert og vottur um góða skipulagningu, en kannski minni sveigjanleika en maður á að venjast. Alloft birtast auglýsingar heima á Íslandi um störf þar sem óskað er eftir að viðkomandi byrji, helst í gær. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort fyrirtæki og stofnanir vilji virkilega ráða fólk sem getur stokkið fyrirvaralaust úr vinnu? Hverskonar störfum gegndi það þá áður? En ráðning með árs fyrirvara finnst mér öfgar í hina áttina og trúi því ekki að það sé vænlegt til árangurs.

Saga úr strætó

Ég er aðdáandi strætisvagnakerfisins hér. Vagnarnir koma með fimm mínútna millibili, bílstjórarnir heilsa glaðlega og fólk þakkar fyrir sig þegar það gengur út úr vögnunum. Svo eru vagnarnir nýttir til að mynda félagsleg tengsl eins og ég varð vör við í morgun.

Ung kona kom í vagninn með litla, c.a. hálfsárs bláeygða, ljóshærða  og fallega stúlku sem brosti í allar áttir. Hún brosti þó mest til konunnar fyrir framan mig, miðaldra konu með slæðu, greinilega af indverskum uppruna. Hrifningin virtist gagnkvæm því konan færði sig nær þeirri litlu og móðurinni. Móðirin og konan tóku tal saman og spurði móðirin hina hvort hún ætti börn. Nei, ég á engin börn. Ég átti einn son sem lést ungur.

Ég fékk sting í hjartað við þetta svar og svo átti örugglega við um fleiri í strætisvagninum því þær töluðu saman á milli sætisraða svo  fólk í kring komst ekki hjá því að heyra samræðurnar.  

Unga móðirin lét þetta ekki slá sig út af laginu, vottaði hinni samúð sína, stóð upp  og færði henni barnið í fangið. Það hefði mátt heyra saumnál detta í vagninum.

Hún spurði svo þessarar hefðbundnu spurningar, sem flestir hörundsdökkir útlendingar fá. „Hefurðu búið lengi í Skotlandi?Í ljós kom að sú indverska hafði tekið doktorsgráðu í sjávarlíffræði í Oxford, þar sem eiginmaður ungu konunnar hafði einnig numið og þær áttu sameiginlegan kunningja.  Unga konan fór út úr vagninum á sama stað og ég en þær höfðu þá skipst á netföngum og ætluðu að halda sambandi.

Einhvern veginn skein sólin skærar en áður, þessa síðustu metra að háskólabyggingunni, eftir að ég steig út úr strætó í morgun.

 


Paranoja í banka

Dagurinn í dag var stofnanadagur, eftir skóla. Borga stöðumælasekt, ná í pakka í pósthúsið, kaupa strætókort og fara í bankann og fá skýringu á því afhverju umsóknin mín um námsmannareikning var endursend. Það er skemmst frá því að segja að mér gekk ekkert með þessi erindi, var aldrei á réttum stað á réttum tíma eða það vantaði þetta og hitt. Í bankanum tók ungur maður á móti mér og kíkti á umsóknina um bankareikning.Það vantar nafn mömmu þinnar þarna“, sagði hann.

Vantar nafn mömmu minnar á umsóknina? Sérðu ekki á hvaða aldri ég er? (Í nokkrar sekúndur trúði ég því jafnvel að ég liti út eins og hver önnur yngismey sem þyrfti uppáskrift frá mömmu)

Þetta er bara öryggisatriði

Öryggisatriði, að hafa nafn aldraðrar móður á bankareikningi? 

Já, svona eru reglurnar.

Ég hugsaði breska kerfinu þegjandi þörfina. Námsmaður, ergó, þarf ábyrð frá foreldrum. Þó ég sé augljóslega komin á miðjan aldur þá þarf að fylgja reglunum. Ég settist niður og sá þá dálkinn sem mér hafði yfirsést á umsókninni. Skírnarnafn móður minnar eða annað passorð að eigin vali......



Fimm hundruð ára gamall háskóli

Það er tilkomumikið að sitja í fyrirlestrum í elsta hluta háskólans í Aberdeen, sem á yfir 500 hundruð ára sögu og er fimmti elsti háskóli Bretlands. Háskólinn varð til við sameiningu tveggja háskóla, King College sem var stofnaður 1495 til að mennta lækna, kennara og presta fyrir íbúa norður Skotlands og lögfræðinga og býrókrata fyrir sunnlensku krúnuna og Marischal College sem var stofnaður 1593.King College Háskólasvæðið  er hluti af hverfinu Old Aberdeen sem samanstendur af miðaldabyggingum og lágreistum granítbyggingum frá síðari hluta sautjándu aldar. Það var við hæfi á þessum fyrsta skóladegi í viðskiptadeildinni að hlusta á fyrirlestur frá einum af fyrrrverandi framkvæmdastjórum British Petroleum (nú British Gas) en viðskiptalífið í Aberdeen byggir að stórum hluta á olíuvinnslu. Sterk tengsl eru við Stavanger í Noregi og skiptast borgirnar á að halda svokallaða olíuviku en þá koma saman fulltrúar olíuiðnaðarins og helstu sérfræðingar á sviði auðlindarannsókna og bera saman bækur sínar. Olíuvikan var haldin í Aberdeen fyrstu vikuna í september og tóku yfir 35 þúsund manns þátt í viðburðum. Beint flug er á milli Aberdeen og Stavanger og fleiri borga í Noregi. Tengsl norður Skotlands og Noregs eiga sér þó lengri sögu en upphaf olíuvinnslunnar þar sem sjávarútvegurinn var ríkjandi atvinnugrein um árabil með Norðursjóinn sem gjöfula matarkistu.

 


Tom Hunter styrkir frumkvöðlafræði

Skoski auðkýfingurinn Tom Hunter og skoska þingið  efna til sameiginlegs átaks með það að markmiði að örva  frumkvæði í skosku atvinnulífi.  Veittir verða veglegir styrkir til háskólanna í Edinborg, Aberdeen og  Strathclyde sem munu koma upp sérstöku námi í frumkvöðlafræðum. Styrkupphæðin nemur 2,65 milljónum punda. Þetta er aðeins upphafið að samstarfi yfirvalda og Hunters í þágu menntunar ungs fólks í Skotlandi. Hunter komst í heimsfréttirnar í sumar þegar hann tilkynnti að þau hjónin, Tom og Lady Marion Hunter hyggðust láta yfir 90 % af auði sínum renna til góðgerða,- og menntunarmála.  


mbl.is Margir styrkja háskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafrænn aðgangur á götum úti

Borgaryfirvöld í Aberdeen láta sér ekki nægja að vera með góða heimasíðu fyrir íbúa og ferðamenn. Á fjórum stöðum í borginni eru upplýsingastandar, iKiosks þar sem hægt er að fræðast jafnt um tryggingabætur sem og matsölustaði, almenningssamgöngur, verslanir og fleira. Engin aðgangsorð þarf til að fá upplýsingarnar, nóg er að snerta skjáinn. Að sögn borgaryfirvalda er upplýsingastandur af þessum toga einsdæmi í Evrópu og var meðal annars unnin í samstarfi við samtök verslunareigenda og samtök fatlaðra. Eins og sést á myndinni er annar skjárinn staðsettur þannig að fólk í hjólastól  á auðvelt aðgengi að honum. ST_NICHOLAS_IKIOSK

 

 

 



Afgreiddi mig sjálf í Tesco

Ekki nóg með að Tesco sé með ódýrar mat- og heimilisvörur, heldur getur maður afgreitt sig sjálfur í versluninni. Renndi vörunum hróðug í gegnum skannan áðan, meira að segja 15 punda ryksugunni. Mæli eindregið með að Hagar fái sér svona tæki, ekki veitir af að losa  um starfsfólk í þenslunni sem ríkir á vinnumarkaðnum. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband