25.10.2007 | 19:34
Skór í skúmaskoti
Aberdeen er eins og aðrar borgir í Bretlandi, töluvert um glæpi og varasamt að vera einn að rjátla um göturnar eftir að myrkva tekur. Gatan sem ég bý við er við enda aðalgötunnar í borginni, Union Street, og er stundum fjör á nóttunni þegar ólátabelgir þramma í gegnum götuna á leið heim af börunum. Þó eru lætin hátíð miðað við lýsingar miðborgarbúa í Reykjavík sem búa nálægt hávaðasömum veitingahúsum. Það eru aðallega þessi óp sem geta vakið mann af værum blundi og spörk í ruslatunnur og annað lauslegt sem verður á vegi drukkinna karla í vígahug.
Ég verð að viðurkenna það að ég er orðin óttalegur héri með aldrinum en það sem er spaugilegast er að ég er eiginlega óttaslegnust á leiðinni út úr íbúðinni minni og að útidyrunum í húsinu sem ég bý í.
Þó að íbúðin sé notaleg og björt þá er stigagangurinn fremur dimmur og töluvert um skúmaskot. Hér eru sex íbúðir og það virðast bara búa einhleypir karlar í öllum íbúðum nema minni. Það er rétt að maður sjái þá skjótast eins og silfurskottur að sækja póstinn á sloppum, endrum og eins.
En þeir skelfa mig ekki, heldur sú tilfinning að það búi einhver handan við stigann, við dyrnar að bakgarðinum, jafnvel inni í myrkri geymslu sem er þar staðsett. Tvívegis hef ég heyrt þrusk og hurðaskelli þegar ég hef komið heim eftir að rökkva tekur og í stað þess að herða upp hugann og kanna aðstæður er ég vön að taka til fótanna upp í íbúðina mína og setja slagbrandinn fyrir.
Í morgun, þegar ég var á leið í skólann, ákvað ég að fara í könnunarleiðangur vegna þruskhljóðanna sem ég heyrði í gærkveldi. Við dyrnar var komin laufhrúga (inni) og þar voru líka tötralegir karlmannsskór. Ég fékk á tilfinninguna að það væri einhver sofandi í geymslunni, sem hefði lagt skónum kurteisislega fyrir framan dyrnar, svona til að gera einhver skil á milli svefnstæðis og daglegs lífs.
Ekki var kjarkurinn meiri en svo að ég hrökklaðist í burtu í stað þess að opna geymsluna.
Er að hugsa næstu skref en stefnan er allavega að kaupa vasaljós og annan vígbúnað og láta sverfa til stáls. Þar til er ráðgátan um skóna í skúmaskotinu enn óleyst og meðan svo er, þá tek ég stigann í einu stökki, á leið inn og út af heimili mínu.
Athugasemdir
jæja, nú verðurðu að vera enn duglegri að blogga, við hérastubbarnir á Íslandi verðum annars voða hrædd um þig...
baun (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 09:59
Já ég er til dæmis að velta því fyrir mér núna hvort ég eigi að þora út með ruslið....
Regína (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 10:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.