Sómastaðir

188895574_2cf98b4622Jæja, þá er ættaróðalið bara komið á styrk frá Alcoa. Nú dámar mér aldeilis, eins og hún amma myndi segja sem fæddist og ólst upp á bænum Sómastöðum við Reyðarfjörð. Ég skynjaði snemma að Sómastaðir væru á fegursta bletti landsins, þar sem fjörðurinn var svo lygn að  fleyta mátti kerlingar dagana langa. Og allur ættboginn fór í sveit á Sómastaði, ég þar með talin, en að vísu bara eitt sumar. Systkinin Hans og Gunna héldu úti búskap fram undir lok áttunda áratugar (síðustu aldar) en þá fór bærinn í eyði.

Langafi minn, sem hét Hans Jakob Beck, eins og Bekkurinn minn í Bergen, byggði húsið og bjó með langömmu, Mekkin. Þau eignuðust á annan tug barna en fyrir átti hann annað eins, með fyrri konu sinni. Hann dó, fljótlega eftir að yngsta barnið fæddist, kannski ekki skrýtið því þá var hann kominn yfir áttrætt. Langamma var þá rétt að verða þrítug. Hún flutti suður með yngsta drenginn en eldri hálfsystkinin tóku hin í fóstur, eitt á mann.

Bærinn þykir mjög sérstakur fyrir það að vera eina portbyggða steinhúsið sem varðveist hefur á Íslandi. Hér í Skotlandi er fjöldi svipaðra húsa og merkilegt nokk, á ferð minni um Bandaríkin síðasta vor, á afar strjálbýlu svæði í Utah, rakst ég á steinbæ frá lok nítjándu aldar sem var nánast eins og Sómastaðir.

Það er nánast súrrealistísk sjón að sjá þennan gamla fallega bæ í hlaðinu við álverksmiðju Alcoa og maður fær á tilfinninguna að minningarbrot um heimalninga, hey og hlöðu, hafi bara verið einhver rómantískur draumur um líf sem aldrei var.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband