Skór í skúmaskoti

vin-shoesAberdeen er eins og  aðrar borgir í Bretlandi, töluvert um glæpi og varasamt að vera einn að rjátla um göturnar eftir að myrkva tekur. Gatan sem ég bý við er við enda aðalgötunnar í borginni, Union Street, og er stundum fjör á nóttunni þegar ólátabelgir þramma í gegnum götuna á leið heim af börunum. Þó eru lætin hátíð miðað við lýsingar miðborgarbúa í Reykjavík sem búa nálægt hávaðasömum veitingahúsum. Það eru aðallega þessi óp sem geta vakið mann af værum blundi og spörk í ruslatunnur og annað lauslegt sem verður á vegi drukkinna karla  í vígahug.

Ég verð að viðurkenna það að ég er orðin óttalegur héri með aldrinum en það sem er spaugilegast er að ég er eiginlega óttaslegnust á leiðinni út úr íbúðinni minni og að útidyrunum í húsinu sem ég bý í.

Þó að íbúðin sé notaleg og björt þá er stigagangurinn fremur dimmur og töluvert um skúmaskot. Hér eru sex íbúðir og það virðast bara búa  einhleypir karlar í öllum íbúðum nema minni. Það er rétt að maður sjái þá skjótast eins og silfurskottur að sækja póstinn á sloppum, endrum og eins.

En þeir skelfa mig ekki, heldur sú tilfinning að það búi einhver handan við stigann, við dyrnar að bakgarðinum, jafnvel inni í myrkri geymslu sem er þar staðsett. Tvívegis hef ég heyrt þrusk og hurðaskelli þegar ég hef komið heim eftir að rökkva tekur og í stað þess að herða upp hugann og kanna aðstæður er ég vön að taka til fótanna upp í íbúðina mína og setja slagbrandinn fyrir.

Í morgun, þegar ég var á leið í skólann, ákvað ég að fara í könnunarleiðangur vegna þruskhljóðanna sem ég heyrði í gærkveldi. Við dyrnar var komin laufhrúga (inni) og þar voru líka tötralegir karlmannsskór. Ég fékk á tilfinninguna að það væri einhver sofandi í geymslunni, sem hefði lagt skónum kurteisislega fyrir framan dyrnar, svona til að gera einhver skil á milli svefnstæðis og daglegs lífs.

Ekki var kjarkurinn meiri en svo að ég hrökklaðist í burtu í stað þess að opna geymsluna.  

Er að hugsa næstu skref en stefnan er allavega að kaupa vasaljós og annan vígbúnað og láta sverfa til stáls. Þar til er ráðgátan um skóna í skúmaskotinu enn óleyst og meðan svo er, þá tek ég stigann í einu stökki, á leið inn og út af heimili mínu.


Kalifornía

Spakir íkornarÞað er ekki hægt annað en að hugsa til fólksins sem býr í Kaliforníu þessa dagana og baráttu þess við að halda heimilum sínum. Ragnarök eru orð sem einhverjir íbúar hafa látið falla um eyðilegginguna.

Ég heimsótti Kaliforníu í fyrsta skipti fyrir nokkrum mánuðum síðan. Við Erna María, frumburðurinn minn, ferðuðumst einhverja þúsundir kílómetra í þriggja vikna ferð okkar frá Denver í Colorado og niður til San Diegó og þaðan meðfram allri strandlengjunni í Kaliforníu og alveg upp til Shelter Cove í norðri. Flestir kílómetranna voru farnir akandi þar sem við skiptumst á að keyra, einnig voru margar flugmílur flognar í ferðinni og þar var Erna ein við stjórnvölinn en ég naut lífsins sem farþegi.

Ég hafði heyrt um Kaliforníu frá því ég var smákrakki. Um appelsínurnar og vínberin sem uxu í görðunum, fagurbláan sjóinn, pálmatrén og hlýja loftslagið, að ógleymdum stjörnunum í Hollywood. Föðurbróðir minn bjó og starfaði í Los Angeles, var yfirkokkur á Hilton hótelinu í Beverly Hills og giftur ítalskri konu. Hann kom til Íslands á þriggja ára fresti og bjó þá á heimilinu hjá okkur. Ég finn enn lyktina af glænýjum dúkkum sem voru einatt með í för hans, Barbie jafnaldra mín er afar minnisstæð og bleika ballerínan, sem var um 70 cm á hæð og gat talað og hreyft leggina.

Ég gat horft löngum stundum á myndir af systkinabörnum mínum þarna úti, fallega brúnum í ljósum sumarfötum, og látið dagdraumana bera mig hálfa leið til góssenlandsins. Ragnhildur systir var líka bitin af bakteríunni en lét dagdrauma ekki nægja heldur flutti til Los Angelses með fjölskyldunni og fór í nám í kvikmyndagerð.

Ég verð að segja að ég upplifði Kaliforníu enn fallegri heldur en ég hafði ímyndað mér, þegar ég loksins kom þangað. Ekki að undra að þeir sem hafa mestu peningafjárráðin velji að búa þar. Loftslagið, sjórinn, fjöllin, gróðurinn, alveg óendanlega fallegt og hlýlegt.

Ég vona svo innilega að menn nái tökum á eldunum, áður en tjónið verður enn meira en orðið hefur og að stjórnvöldum takist að bæta fólki fljótt og vel þann skaða sem hefur orðið.


Víðar norpað en við Norðursjó

Home page image 1Stjórnandi námsins sem ég er í, Lyn Batchelor, brá sér til Íslands um sömu helgi og ég var heima. Hún er frá Ástralíu og mætti til landsins í fylgd tíu vina, Breta og Ástrala. Ég vonaði auðvitað heitt og innilega að Ísland myndi taka á móti hópnum með björtu veðri svo sæist í jökla og fossa, lát vera að fossarnir væru í klakaböndum, aðalatriðið að það glitti í þá.

Liz kom á laugardegi, um hádegi og sendi mér smáskilaboð strax og hún kom til borgarinnar. Landið ykkar töluvert öðruvísi, leið eins og ég væri komin til tungslins á leiðinni frá flugvellinum til Reykjavíkur, sagði í skilaboðunum. Dumbungsveður var í borginni og rigningarsuddi.

Skömmu eftir hádegi hringdi svo Liz; eitthvað sérstakt sem við ættum að gera í Reykjavík úr því veðrið er svona, "some indoors activities?"

Hmmmm, það rauk úr heilanum á mér. Kannski að fara á söfn? Skoða þessi fjögur kuml sem við eigum á Þjóðminjasafninu, eða fölsuðu/ófölsuðu málverkin í Listasafni Íslands? Eða kannski að versla, í Smáralind eða Kringlunni? Það er allavega inni.

Ég endaði á að benda henni á að fara í sund. Það er mjög vinsælt í vondum veðrum á Íslandi, sagði ég (líka í góðu veðri). Gaman að láta dropana daðra við nefbroddinn í heitum potti.  Ég var stödd í Borgarnesi á leið í Stykkishólm að heimsækja mömmu sem dvelur þar á sjúkrahúsi, þegar Lyn hringdi, svo ég átti óhægt um vik að bjóðast til að koma og lóðsa hópinn í sund. En ég reyndi að útskýra fyrir henni í símann, strætósamgöngur í Vesturbæjarlaug eða Laugardalslaug.

relaxtubeHversvegna skyldi það nú vera, að það sem mörgum ferðamönnum finnst mest spennandi  af því sem við höfum upp á að bjóða í Reykjavík, útisundlaugar, sé ekki í boði í miðborginni? Ætli engum heilsuræktarfrömuði hafi dottið í hug að sækja um lóð til slíks reksturs? Eða hóteleiganda? Ég er viss um að lítil útilaug með heitum pottum yrði afar vel sótt af ferðamönnum og jafnvel miðborgarbúum. Það mætti selja miðana á hærra verði, til að reksturinn bæri sig. Það væri ekki amalegt að geta skokkað  í laugina úr Hlíðunum á góðum kvöldum og borgað sambærilega upphæð  og í bíó, fyrir að svamla í heitum potti, horfa á stjörnubjartan himininn og súluna hennar Yoko. Fá sér svo snarl á börum bæjarins á heimleiðinni.

En af Liz og vinum hennar er það að segja að þau fóru fljótlega úr bænum og áttu frábæra daga í Borgarfirði og á suðurlandi auk þess sem Bláa lónið var heimsótt. Þrátt fyrir hryssinginn og norpið sem honum fylgdi, ætla þau öll að koma aftur, en að vísu að sumarlagi.


Fjör í Frakklandi

aÞað er ólga í Frakklandi og Sarkozy forseti búinn að læra heimavinnuna, það sem allir forsetar og forsætisráðherrar verða að kunna, smjörklípuaðferðina. Hann tilkynnti um skilnaðinn við eiginkonuna og blaðamenn hlupu eftir skilaboðunum, hættu að fjalla um mótmælin og í staðinn eru fyrirsagnir dagblaða undirlagðar af einkalífi forsetans og fyrrum eiginkonu.

Ragnhildur systir tók þessa skemmtilegu mynd úr mótmælagöngu, en hún og fjölskyldan hafa vetursetu í París, nálægt Place du la Republique.

Ég á fleiri að í Frakklandi því tengdaforeldrar mínir, Páll og Auður búa í Metz. Við Biggi heimsóttum þau í sumar og vorum síðan með íbúðina þeirra í láni í tvær vikur. Það er skemmst frá því að segja að við féllum fyrir borginni. Í Metz er skemmtileg blanda af frönskum og þýskum áhrifum en borgin ber þess merki að hafa verið undir yfirrráðum þjóðverja en það var frá 1881 til 1919, og aftur 1940 - 1944.

Í Metz er eitt skemmtilegasta torg sem ég hef komið á en sjarmi borga felst gjarnan í miðborgartorgi að mínu mati. Torgið í Metz er með fjölda veitingahúsa og er þétt setið á góðum sumardegi. Metz bauð líka upp á útisundlaug og svo voru tveir golfvellir í nágrenninu. 

Einhver sagði mér að íbúar í Metz og nágrenni væru í meiri hættu á að fá hjartaáföll en aðrir íbúar Frakklands. Það helgast af því að þeir borða eins og þjóðverjar og drekka eins og frakkar. Það getur ekki verið góð blanda!

 


Tveir vinir í Aberfoyle

Ísland kemur til Aberfoyle, segir í kynningu á fimm daga sveppahátíð í bænum Aberfoyle í Skotlandi. Bagglútur spilaði í gærkveldi og á hverjum degi er kynning á Íslandi, styrkt af Skyri (hvaða fyrirtæki er það?), Reyka Vodka og Icelandair. Viking Warriors og  Kinlochard Ceilidh Band  eru á meðal annarra hljómsveita á þessari hátíð sem virðist afskaplega heimilisleg.


Skoskar stúlkur með selshúð

Grís í útstillingagluggaGordon Brown hyggst leggja til atlögu við drykkjumenningu ungs fólks en unglingadrykkja í Bretlandi er komin úr böndunum að mati yfirvalda. Skotland er svo sannarlega ekki undanskilið því skoskir unglingar og sérstaklega skoskar stúlkur drekka einna mest af ungu fólki samkvæmt alþjóðlegum samanburðarkönnunum.

Þetta kemur ekki á óvart. Þegar við Biggi komum hingað til Aberdeen á föstudagskvöldi fyrstu helgina í september fengum við nánast sjokk. Við komum okkur fyrir á gistiheimili og ætluðum svo út að fá okkur huggulegan kvöldverð. Orðin ofdekruð af Frakklandsdvölinni í sumar og sáum fyrir okkur notalegt kvöld, jafnvel á veitingahúsi með borðum úti. Sjónin sem mætti okkur var hinsvegar ófögur. Hvarvetna drukknir unglingar sem hrópuðu og hræktu og hálfberar unglingsstúlkur skjögrandi á alltof háum hælum. Ég hef aldrei séð annað eins, nema í Reykjavík!

Það kom síðan á daginn að þessi fyrsta helgi í september er sérstök, þá eru 20 þúsund ungmenni að byrja í háskólunum og drykkjan í hámarki. En klæðnaður skoskra kvenna á djamminu er algjörlega með ólíkindum. Bæði hér og í Glasgow og Edinborg er einhver undarleg tíska. Berir leggir þó það séu örfá hitastig, hælaháir Andresínuskór, glitrandi toppar og æpandi eyrnaskraut. Við vorum forviða vinkonurnar í Edinborg þegar við sáum straumana af stúlkum sem voru á leið á djammið í búningum sem hefðu sómt sér betur í rauða hverfinu í Amsterdam.

En eitt er fagurfræðin, annað er kuldaþolið. Ég er hreinlega á því að þær hafi selshúð, skosku stúlkurnar. Áfengið gerir þær auðvitað heitar en ég tek líka eftir þessu í strætó og í skólanum. Á meðan að ég og aðrir erlendir námsmenn vefjum okkur inn í ull og dún þá spígspora þær framhjá í hlýrabolum. Það verður spennandi að sjá hvernig þær klæða sig í alvöru vetrarveðrum, frosti og snjókomu. Kannski nælonsokkabuxur séu vetrarbúningurinn í stað þess að vera með bera leggi.


Leitað að Liz

buddiesÁ dögunum barst mér orðsending frá stúdentafélaginu hér við háskólann. Það var verið að kynna verkefni sem kallast "Buddy scheme". Markmiðið er að bjóða nemendum sem eru eldri og/eða koma í nám eftir langt hlé tækifæri á að hitta reyndari nemendur og fá ráð og stuðning. Það var birtur listi yfir nemendur sem voru tilbúnir í stuðningshlutverkið. Á honum voru nokkur orð um bakgrunn, nám og aldur. Þeir sem voru skilgreindir sem eldri nemendur voru fæddir frá árinu 1981!

Ég kíkti á listann og sá þarna eina á mínum aldri, konu sem hefur unnið við bókhald en er nú að ljúka námi í sálfræði. Ég ákvað að slá bara til og senda henni línu. Ekki verra með bókhaldsbakgrunn hennar, einmitt fagið sem ég á að gera verkefni í núna. Hún svaraði mér um hæl og vildi endilega hitta mig. Við mæltum okkur mót klukkan tólf á kaffistofu bókasafns skólans.

Ég verð að viðurkenna að ég var með fiðrildi í maganum. Skrýtið að mæla sér mót við manneskju sem þú hefur aldrei séð. Hvernig skyldi hún líta út? Ég var aðeins of sein, kennarinn hleypti okkur of seint úr tíma. Ég skimaði í kringum mig á kaffistofunni, fullt af nemendum, sá aðeins eina sem gæti verið á mínum aldri. Hún var að tala við aðra konu, en virkaði samt svona, ja, eins og hún væri að bíða.  Ég vappaði pínu í kringum hana, sneri mér svo að henni og spurði kurteisislega hvort hún héti Liz. Hún horfði á mig eins og ég væri vangefin, og sagði, nei. Ég lyppaðist tilbaka, settist við borð og ákvað, eftir þessa höfnun, að ég skyldi láta Liz leita að mér.

Svo kom greindarleg  og vel klædd kona, vonandi þessi! En hún labbaði hratt í gegn, greinilega ekki að leita að Regínu frá Íslandi. Síðan kom önnur, kjagandi og hjartað í mér stoppaði. Hún var svo úfin og tuddaleg, get ég forðað mér? Hún hnusaði aðeins á namminu í sjoppunni og fór svo. Þegar þarna var komið við sögu og nokkrir strákar úr bekknum mínum mættir á kaffistofuna þá ákvað ég að bíða ekki lengur. Fór í tölvu bókasafnsins, þar voru skilaboð frá Liz. Henni hafði seinkað og við mæltum okkur mót að nýju.

Eftir þessa reynslu hugsaði ég um fólk sem er að leita sér að ástvini á netinu og mætir síðan á "blind date".  Hvernig skyldi því líða?


Bændur og búalið

chicken2_218802aÞað virðist vera heilmikill búskapur víða í Skotlandi en hvarvetna má sjá blómlegar sveitir með snotrum híbýlum og makindalegum búfénaði.

Aberdeen er svolítið eins og kaupstaðirnir úti á landi heima.  Auk þess að vera sjávarpláss þá koma bændur hingað og gera innkaup. Búðirnar á aðalverslunargötunni eru því með ýmsar nauðsynjavörur, sem þættu ekki smart á Laugaveginum. Í stað þess að horfa á Gucci og Prada í búðargluggunum þá eru ræstivörur mjög áberandi, efnisstrangar og búsáhöld.

En bændur fara ekki bara til Aberdeen til að skipta út skepnum fyrir tebolla og tau. Um daginn fór einn miðaldra hænsnabóndi í bæinn, það er að segja, til Glasgow. Hann var þó svo óheppinn að velta vagninum á leiðinni, með hænsnunum, og hlupu þrjú þúsund hænur um aðalþjóðveg Skotlands. Umferðin tafðist í átta  klukkustundir.

Ég held að ég kvarti ekki yfir einni og einni rollu á íslenskum þjóðvegum framar. 


Í skólanum

kingsauditorium01Nokkrir fyrrum samstarfsfélagar mínir kvarta sáran undan því að heyra ekki meira um mína persónulegu hagi í Aberdeen, hvernig skólinn sé osfrv. Markmiðið með blogginu var ekki að gera nákvæma dagbók, til þess lifi ég ekki nógu spennandi lífi! En af því að þarna er um dygga lesendur að ræða þá ætla ég að taka mið af ábendingunum og segja ykkur betur frá náminu.

Ég er í námi sem er kallað MIC (Management, Innovation and Change) eða stjórnun, nýsköpun og breytingar. Námið er í hagfræðideild Viðskiptaháskólans og gráðan er MSc (Econ). Fram að áramótum erum við með MBA nemendum í öllum kúrsum. Eins og við stríðum þeim með; lærum það sama, fyrir mun lægri skólagjöld!

Fyrir jól tökum við fjögur námskeið;  í rekstrarfræði, fjármálum og bókhaldi, stefnumótun og skipulagsheildum og þjóðhagfræði. Eftir jól eru fjögur námskeið; í stofnun og þróun fyrirtækja, breytingastjórnun, frumkvöðlafræði og fyrirtækjarannsóknum. Svo er það ritgerðin í sumar. Samanlagt eru þetta 180 ECT.

Það er skemmst frá því að segja að mér finnst námið gríðarlega skemmtilegt. Fagið rekstrarstjórnun, "Operations Management" snýst um allt sem viðkemur rekstri. Á meðan að stefnumótun fjallar um hvert fyrirtækið/stofnunin á að fara þá er rekstrarstjórnunin um aðferðir við að gera hlutina. Hvort sem um er að ræða skipulagningu á flæðilínum í verksmiðjum, þjónustuferlum í stórmarkaði, hönnun vinnusvæða, eða svartíma í síma, svo fátt eitt sé talið. 

Eðlilega fylgja þessu fagi töluvert miklir útreikningar og svo á við um flest fögin. Það kom mér til dæmis á óvart á námskeiðinu í  stefnumótun og skipulagsheildum hversu mikil áhersla er á fjárhagslega áætlanagerð. Ég þurfti því að fjárfesta í nokkuð voldugri reiknivél og er í óða önn að læra á öll trixin. Tók "manúelinn" til Íslands yfir helgina og við Biggi eyddum föstudagskvöldinu í að stúdera hann saman. Gaman hjá okkur!

Ég hef nefnt húsnæðið áður, okkar hópur er í elsta hluta háskólans sem er 500 ára. Þegar mér leiðist kennarinn (sem kemur sjaldan fyrir), þá dunda ég mér við að horfa upp í loft í þessum ægifagra sal sem við sitjum í og sést á myndinni hér að ofan.

Segi ykkur meira frá félagslífinu síðar, en svo því sé til haga haldið þá er ég líklega elst af þessum 100 manna hópi og lang fölust í framan. Sker mig skemmtilega úr.Grin


Vindar blása í Reykjavík

Ég þurfti að skreppa heim um helgina, tengdist hugsanlegu verkefni í náminu. Það er ekki hægt að segja annað en að ég hafi komið á fjörugum tímum. Hver fréttaþátturinn á fætur öðrum undirlagður af meirihlutaskiptunum í Reykjavík. Enda um söguleg tíðindi að ræða.

Ég velti fyrir mér hlutverki bloggsins í allri þessari umræðu. Hundruðir borgarbúa tjáðu sig um REI málið á vefnum og skilaboðin komust inn á hvert heimili. Dagblöð í pappírsformi og fréttatímar á kvöldin voru nánast  "old news". Ég held að stjórnmálamenn eigi ekki að vanmeta það afl sem felst í skoðanaskiptum á blogginu, og það skilja stjórnmálamenn á borð við Björk Vilhelmsdóttur, Björn Bjarnason, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og Össur Skarphéðinsson sem taka virkan þátt í umræðum. Stundum heyrist að það sé ekki við hæfi að ráðherrar tjái sig opið um menn og málefni á blogginu. Ég er sammála því að persónulegar ávirðingar eiga ekki erindi á bloggið, hvorki hjá þeim né öðrum. Mér finnst hinsvegar mjög virðingarvert af þeim að kynna skoðanir sínar fyrir almenningi með þessum hætti. Mættu fleiri taka sér þau til fyrirmyndar!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband