Donald i Aberdeen

Nýr DónaldNú held ég að margar vinkonur mínar líti mig öfundaraugum, sjálfur Donald Trump á svæðinu. Við hefðum kannski átt að taka húsmæðraorlofið hér í stað þess að flandrast þetta niðrí Edinborg? En þar hittum við annan Donald og skemmtum okkur mjög vel með honum. Funheitur sá og eftir útöndun frá honum þá leit maður miklu betur út!

Okkar Donald bjó á gistiheimilinu að 11  McDonald Road og ef einhvern þyrstir í samansafn af kitchi þá er þetta staðurinn. 


Fargjaldapólitík Flugleiða

Í fyrirlestri í rekstrarstjórnun í morgun fórum við yfir aðferðir við að meta afkastagetu fyrirtækja og í kjölfarið leiðir til að bregðast við sveiflum í rekstri. Flugfélög voru sérstaklega skoðuð því fáar atvinnugreinar búa við jafn ótryggt rekstrarumhverfi og þau. Það kostar jafnmikið að fljúga hálftómri vél yfir Atlantshafið og fullri og því þurfa flugfélögin að halda úti fjölbreyttu verði á farseðlum, til að vega upp á móti sveiflunum.

En skyldu önnur flugfélög en Flugleiðir vera með mismunandi verð fyrir íslendinga annars vegar og útlendinga hinsvegar? Ég þarf að skreppa heim yfir helgi og var búin að athuga með fargjald frá Glasgow. Ég gat ekki betur séð en ég fengi miða á 13 þúsund hvora leið þegar ég skoðaði vef Flugleiða á tölvunni minni. Ég ætlaði að festa mér miða í síðustu viku, en þar sem tölvan mín var biluð þá fór ég í tölvu háskólans og hóf ferlið. Þá kostaði miðinn allt í einu 30 þúsund hvora leið.

Ég hélt að ódýru fargjöldin væru uppseld. Lét Bigga vita sem skoðaði málið. Og viti menn, úr tölvunni hans heima, var enn hægt að panta miða á 13 þúsund. Hverskonar fargjaldapólitík er þetta?


Með rauðvín í poka

Á föstudagskvöldinu borðuðum við á meira en fimmtíu ára gömlum indverskum veitingastað, Kushi´s, sem er við Viktoríustræti í gamla bænum í Edinborg. Staðurinn er á tveimur hæðum í glæsilegri byggingu, sem er greinilega nýuppgerð.  Athygli vakti risastór kristalsljósakróna sem náði á milli hæða.

Þegar þjónninn kom og bauð okkur drykki, þá báðum við að sjálfsögðu um að fá að sjá vínlistann. "Það er ekkert vín selt hér" sagði þá þjónninn. Við hváðum við því allt í kringum okkur mátti sjá rauðvínsflöskur á borðum  og bjóra á stöku stað. Fólk kemur með vínið að heiman sagði þjónninn þá, eða fer á nærliggjandi bari og tekur með sér inn.

Við fengum okkur bara vatn með matnum og vorum sælar með það. Það virkaði eitthvað svo mikið vesen  að fara að þvælast á bari í kring og kaupa glös af víni og labba með yfir á veitingahúsið. Auk þess hafa bragðlaukarnir af nógu að taka þegar indverskur matur er annars vegar. Og maturinn var mjög góður.

Það er víst ekki einsdæmi í Edinborg að veitingastaður bjóði fólki að taka með sér vín að heiman.   Myndi spara dálaglegar summur hjá gestum íslenskra veitingahúsa, ef þessi siður yrði tekinn upp! 


Draugar og dýflissur

Edinborgarkastali

Edinborg skartaði sínu fegursta um helgina er hún tók á móti húsmæðrum, ættuðum úr Menntaskólanum í Kópavogi, sem voru saman komnar frá Aberdeen, Reykjavík, Kópavogi, Árborg og Ölfusi til að halda sína árlegu orlofshelgi.

Með þeim Betu, Rúnu, Auði og Írisi naut ég lífsins í fimmtán stiga hita og sól og skoðaði kastala, kirkjur og turna og valhoppaði um þröng stræti, hæðir og hóla. Og sögurnar seytluðu  um aftökur, dýflissur, drauga og krufningar.

Ekki furða þó  J.K Rowling gangi vel að skrifa um ævintýri Harry Potters  í þessu umhverfi, en hún er líklega frægasti núlifandi íbúi Edinborgar í dag. Lengi vel montuðu íbúar Edinborgar sig af Sean Connery, en hann kemst ekki í hálfkvisti við Rowling hjá ungu kynslóðinni í dag. Sagt er að Connery hafi neitað í mörg ár að þiggja boð drottningar um að verða aðlaður, þar sem hann var í baráttu fyrir aðskilnaði Skotlands frá Bretlandi. Það var ekki fyrr en eftir að skotar fengu loks eigið þing  að hann tók boðinu.


 


Tölvan bilud

Tölvan min nyja tok upp a ad bila, kannski buin ad blogga of mikid! Alla vega, nokkurra daga hle. Segi ykkur fra Edinborg i naesta bloggi, er ad fara tangad um helgina, ad hitta skvisurnar i husmaedraorlofsklubbnum.


Skyndibitar

Fyrsti "drive through" skyndibitastaðurinn, sem var stofnaður, var Pig Stand veitingahúsið í Los Angeles. Eigandinn, Royce Halley, var vanur að koma út bakdyramegin og afhenda hinar frægu "Barbequed Pig" samlokur til bílstjóra sem keyrðu upp að húsinu. Þetta var árið 1928. Í dag er 80 % af söluaukningu  McDonalds í Bandaríkjunum í gegnum bílalúgur.

Og enn  keppast eigendur stóru veitingahúsakeðjanna við að finna nýjar og  fljótvirkari aðferðir til að mæta þörfum viðskiptavina.

Sagt er að Starbucks hafi í tilraunaskyni komið upp myndavél við aðrein að einu veitingahúsi sinna sem tekur mynd af viðskiptavinunum um leið og þeir keyra upp að húsinu og sendir rafrænt í tölvu í eldhús veitingahússins. Ef viðskiptavinurinn er þekktur þá  finnur starfsfólkið til matinn - áður en viðkomandi pantar.

Markmiðið er að finna til vöruna, jafnvel áður en þig langar í hana, alla vega eigi síðar en sekúndubrotum eftir að bragðlaukarnir kalla. 


Kaffikaka í kastala

Helgin er búin að vera frábær. Ákváðum að rannsaka svæðið norðan við Aberdeen og fórum í góðan bíltúr í gær. Fallegar víkur og vogar, langar hvítar strendur og glampandi sól sem fylgdi okkur allan daginn og hefur í raun verið fylgifiskur ferðalanganna frá því á föstudag. Fórum aðeins í bæina við ströndina. Sumir hálfeymdarlegir, eins og Petershead með niðurníddum húsum og illa hirtu hafnarsvæði.Toppurinn á deginum var heimsókn í Delgatie Kastala sem er tæplega þúsund ára gamall. Þar var athvarf Maríu Skotadrottningu í nokkra daga í bardaganum mikla við Corriche . Starfsemin í kastalanum er rekinn af sjálfboðaliðum og er megin tekjulindin í gegnum veitingasölu. Enda yndisleg lítil testofa með úrvali af góðum kökum. Smökkuðum þrjár tegundir, pabbi var með þá bestu, kaffikökuna, sem ég mæli hikstalaust með. Vel þess virði að fara aftur, fyrir eina sneið .


Húrra!

Biggi og pabbi eru að koma á eftir í helgardvöl. Eru lentir í Glasgow og leggja von bráðar í þriggja tíma akstursferð en það er tíminn sem það tekur að koma hingað. Ég hlakka mikið til. Ætlum að keyra hér um hálendið, jafnvel að fara að Loch Ness og svo verður pabbi náttúrulega að komast á skoskan pub og horfa á leik. Ég sendi bara Bigga í þann leiðangur! Ekkert blogg um helgina, verðum í sambandi á mánudag. 

Íslenskar konur

Ég var spurð af því um daginn hvort það þyrfti ekki mikið hugrekki til að rífa sig upp og fara í nám á miðjum aldri. Ég velti vöngum yfir þessari spurningu. Ég hafði bara ekkert hugsað út í það.  

Háskólarnir heima eru nefnilega fullir af konum á miðjum aldri sem eru að sækja sér meiri menntun. Ég á nokkrar vinkonur á svipuðu reki sem hafa nýlokið framhaldsnámi eða eru núna í námi. Systir mín, nokkrum árum eldri lauk framhaldsnámi í vor og tengdamamma er að ljúka við sína meistararitgerð um þessar mundir. 

Þær sem eru ekki í háskólunum, eru jafnvel að stofna sín eigin fyrirtæki og sumar hverjar  komnar í útrásina margfrægu.

Enn aðrar eru að glíma við ýmsa erfiðleika, ástvinamissi, alkóhólisma eða reynslu af því að eiga langveik börn og skrifa einlægar og opnar færslur um þá viðureign á vefnum.

Það er einfaldlega eitthvað við konur þessa lands. Einhver kraftur og framsækni sem drífur þetta litla þjóðfélag okkar áfram.

Eitt er að eiga orku í iðrum jarðar, en það vegur þó lítið á móti þeirri  auðlind sem felst í íslenskum konum. Það er eitthvað sem mætti virkja!

 

 


Í skólanum

Prófessor Robert Chia frá Singapore ljómaði þegar hann ræddi um Adam Smith í morgun.

"Kapítalisminn er einhver sú stórkostlegasta hugmynd sem hefur verið fundin upp".

Og allir hundrað kollarnir í salnum kinkuðu. Hvort sem þeir tilheyrðu Wu frá Kína, Doru frá Nígeríu, Anne frá Póllandi eða Salad frá Indlandi. 

Allir komnir til að læra að græða. Ekkert verið að spá og spekúlera í mannréttindamálum eða kynjafræði út frá hugmyndinni um réttlæti. Slík umræða ætti einungis rétt á sér í samhengi við að reka fyrirtæki með sem mestum hagnaði. 

Og síðar;  

 "Það gildir að vera klókur, hafa skýra stefnu. Við í Singapore áttum ekkert land, engar auðlindir og þurftum að bjarga okkur. Við lokkuðum erlenda auðhringi til okkar með því að bjóða þeim tvennt. Fimm skattfrjálsa daga á ári og engin verkalýðsfélög. Ég veit að einhverjum hér finnst verkalýðsfélög mikilvæg en hvað áttum við að gera? Svelta?"

Síðar í dag var  fyrirlestur hjá öðrum prófessor, um alþjóðavæðinguna. Þar kom fram, sem allir vissu, því aftur kinkuðu hundrað kollar, að stórfyritæki stæðu frammi fyrir afar takmörkuðum auðlindum sem ógnuðu framleiðslunni.  Að fyrirtæki til dæmis í álbræðslu leituðu allra leiða til að komast i ódýra raforku. Og færu jafnvel til vanþróaðri ríkja með framleiðsluna.

Það er nefnilega það.

Ég  hét með sjálfri mér að segja engum frá viðskiptaviti íslenskra stjórnvalda .

Singaporbúar seldu vinnuframlag sitt fyrir lítinn pening fyrir áratugum síðan , þegar þjóðin bjó við afar kröpp kjör. Þeir áttu ekki annarra kosta völ  að mati doktor Chia.

Íslendingar, ein ríkasta þjóð heims, gera út leiðangra til að bjóða eftirsóttustu vöruna á markaði í dag, fyrir spottprís!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband